Fréttir eftir árum


Fréttir

Mátti ekki taka myndir í höfuðstöðvum Toyota

26.3.2019

Eyrún Engilbertsdóttir útskrifaðist í febrúar síðastliðnum með BSc-gráðu í hátækniverkfræði frá HR. Fyrir áramót sá hún auglýsingu um áhugaverða ferð í kennslukerfi háskólans. „Það var einfaldlega tilkynnt um að hægt væri að sækja um styrk til Japansferðar.“ Hún ákvað að sækja um.

Ferðin var fyrir evrópska háskólanema og var styrkt af japanska sendiráðinu. Hún stóð yfir í 10 daga og gaf Eyrúnu tækifæri til að kynnast samfélaginu, heimsækja áhugaverð fyrirtæki og hlýða á eftirminnilega fyrirlestra. „Ferðin var reyndar aðallega fyrir nemendur í viðskiptafræði og hagfræði en ég ákvað að slá til. Ég komst að því síðar að það eru líka farnar sérstakar ferðir með nemendum í tæknigreinum! En ferðin var samt jafn áhugaverð fyrir vikið.“ Í ferðinni voru nemendur frá 39 Evrópulöndum, allt frá BSc-nemum upp í doktorsnema.

Ung kona stendur fyrir framan fallegan gróðurGróðurinn í Japan er greinilega fráburgðinn þeim íslenska: Eyrún í Japan.

Háskólar, sprotafyrirtæki og höfuðstöðvar Toyota

Eyrún hafði áður farið til Japan en segir þetta hafa verið allt öðruvísi ferð. „Ég var ekki eins og þessi dæmigerði ferðamaður. Við vorum nokkra daga í Tokyo, svo fórum við suður á bóginn og gistum í eina nótt hjá fjölskyldu í Toyohashi og aðra í Nagoya, svo aftur til Tokyo. Við fórum í heimsókn til sprotafyrirtækisins Mercari en ég var nýbúin að taka þátt í Gullegginu þannig að mér fannst það mjög áhugavert. Við heimsóttum háskóla í Tokyo og höfuðstöðvar Toyota, og mér fannst ótrúlega spennandi, að fylgjast með framleiðslulínunum þar – en því miður mátti ég ekki taka myndir!“ Eyrún hefur alltaf haft áhuga á að kynnast menningu annarra landa, og þá helst á annan máta en sem túristi og segist hafa lært mikið um samfélagið þarna. „Bara það að sjá hvernig fólk gengur um í almannarými, það þarf ekki að hafa ruslafötur á götum af því fólk borðar ekki á ferðinni, þannig að þarf aldrei að henda umbúðum á miðri götu.“

Fastmótaðar venjur geta skaðað samkeppnishæfni

Ein heimsókn var sérstaklega eftirminnileg að sögn Eyrúnar. „Fyrirlestur Yumiko Murakami veitti mér mikinn innblástur. Yumiko er yfir OECD-skrifstofunni í Japan og gerir mjög áhugaverðar greiningar út frá miklu magni gagna og reynir að benda á leiðir til að gera landið samkeppnishæfara. Hún er með menntun frá Harvard og starfaði í 18 ár í fjárfestingabönkum í London, New York og Tokyo. Áður hafði hún starfað fyrir friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Kambódíu.“ Það kom fram í máli Yumiko að það er alls ekki sjálfgefið að Japan, né önnur lönd, séu með gott umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki. „Það eru alltaf einhverjar áskoranir og þær geta verið mismunandi. Í Japan standa fastmótaðar venjur samfélagsins frumkvöðlastarfsemi fyrir þrifum og eins þarf að auka þátttöku kvenna í atvinnulífinu, þar með talið í nýsköpun. Það kom mér á óvart hvað staða kvenna í atvinnulífinu þarna er bágborin en nú er verið að reyna að koma á lögum um að fyrirtæki verði að hafa eina konu í stjórn. Þetta setur íslenska nýsköpunarumhverfið í samhengi og maður sér hvað við erum í rauninni að gera góða hluti.“

JapanStarfar við hugbúnaðarþróun

Eftir útskrift hefur Eyrún starfað við hugbúnaðarþróun fyrir birgðastjórnun hjá fyrirtækinu AGR Dynamics sem hún segir vera skemmtilegan vinnustað. „Það eru margir á mínum aldri að vinna þarna og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og andinn er góður. Þetta er nýsköpunarfyrirtæki sem hefur vaxið ört og nú eru þarna fleiri en 50 starfsmenn. Með hugbúnaðinum okkar geta fyrirtæki skipulagt birgðahald mun betur og eiga ekki of mikið á lager, sem minnkar líka sóun og er betra fyrir umhverfið.“