Fréttir eftir árum


Fréttir

MBA-nám HR hlýtur alþjóðlega gæðavottun í annað sinn

29.9.2016

MBA-námið við Háskólann í Reykjavík hefur á ný hlotið gæðavottun AMBA samtakanna til næstu fimm ára. Markmið AMBA (Association of MBAs) er að auka gæði menntunar á sviði stjórnunar og reksturs á heimsvísu. Þar með er það á ný staðfest að námið skarar fram úr meðal slíkra námsbrauta því í heiminum í dag eru kenndar um 25 þúsund MBA-námsbrautir en aðeins rúmlega 200 þeirra hafa vottun frá AMBA.

Til að fá vottun AMBA þarf að gefa út ítarlega skýrslu um námið ásamt því að taka á móti úttektarnefnd samtakanna. Í vottunarferlinu er farið yfir ýmsa þætti eins og námsefni, virkni nemenda og gæði kennslu.

Nefnd frá AMBA með fulltrúum MBA námsins í HR

Nefndin sem kom í HR ásamt Páli Ríkharðssyni, forseta viðskiptadeildar, og Kristjáni Vigfússyni, forstöðumanni MBA-námsins.

Að sögn Páls Ríkharðssonar, forseta viðskiptadeildar HR, ber vottunin því góða starfi sem unnið er innan deildarinnar vitni. „Við berum okkur ávallt saman við bestu MBA-prógrömm í heiminum. Starfsfólkið leggur á sig mikla vinnu sem miðar að því að gera betur í einu og öllu og jafnframt að endurskoða og bæta þegar það sér tækifæri til úrbóta. Þessi árangur er því starfsfólki viðskiptadeildar sem kemur að umsjón og kennslu í MBA-náminu að þakka, ekki síst þeim sem báru hitann og þungann af gerð stöðuskýrslu um námið og að sjálfsögðu vinna sleitulaust að því að þróa nám á heimsmælikvarða.”

Hann nefnir í því samhengi þau Kristján Vigfússon, aðjúnkt og forstöðumann MBA-námsins, Auði Örnu Arnardóttur, lektor og kennara við MBA-námið, Þórönnu Jónsdóttur, fyrrum forseta viðskiptadeildar og kennara í MBA-námi og Kára Finnsson, verkefnastjóra.

MBA-vottunMBA-nám HR er alþjóðlegt stjórnendanám og koma kennarar meðal annars frá viðskiptaháskólum vestan hafs og austan, t.d. frá IESE í Barcelona á Spáni, Richard Ivey og Rotham í Kanada, Babson College í Bandaríkjunum og London Business School. MBA-nám HR hlaut fyrst viðurkenningu AMBA árið 2011.

Fara á vef MBA-námsins í HR