Fréttir eftir árum


Fréttir

Stafræn merki staðfesta MBA-gráðu

26.3.2015

Öllum útskriftarnemum úr MBA-námi HR verður á næstu dögum gefinn kostur á að sækja sér stafrænt prófskírteini sem meðal annars er hægt að nota á samfélagsmiðlum svo sem LinkedIn.

Nýlega gerðu Háskólinn í Reykjavík og nýsköpunarfyrirtækið Basno Inc. með sér samkomulag um útgáfu stafrænna prófskírteina. Stafræn prófskírteini gera fólki kleift að deila með heiminum afrekum sínum og reynslu, og geta aðrir jafnframt sannreynt þær fullyrðingar.

Kristján Vigfússon

„Aðalverkefni okkar er að veita menntun á heimsmælikvarða. Það er þó ekki það eina sem sterkur háskóli þarf að fást við. Við erum sammála þeim stjórnendum bandarískra háskóla sem nú leggja sífellt meiri áherslu á að auðvelda útskriftarnemum sínum að segja frá námi sínu og miðla af reynslu sinni til tilvonandi vinnuveitenda og til að opna á margskonar tækifæri og tengsl. Sumir af helstu háskólum Bandaríkjanna hafa undanfarið ár ákveðið að fara þessa leið og við erum sannfærð um að litið verði á þetta sem sjálfsagða þjónustu við útskriftarnema innan fárra ára“, segir Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA-náms við Háskólann í Reykjavík.

Þeir sem útskrifast hafa með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík munu á næstu dögum fá tölvupóst frá háskólanum sem býður þeim að sækja stafrænt prófskírteini sitt. Samtals er um að ræða 500 nemendur sem hafa lokið MBA-námi við háskólann frá því hann útskrifaði fyrstu MBA-nemana árið 2002.

Basno Inc. starfar í New York en einn stofnanda fyrirtækisins er Kjartan Örn Ólafsson. Miklar breytingar hafa orðið á sviði stafrænna staðfestinga, skírteina og vottorða undanfarin ár, og hefur Basno verið leiðandi á þeim markaði.