Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

MBA-nemar kynntu lausnir sínar fyrir stjórnendum

30.4.2018

Níu hópar í útskriftarárgangi MBA-nema við viðskiptadeild HR vörðu ritgerðir sínar fyrir dómnefnd sem skipuð var stjórnarmönnum og stjórnendum íslenskra fyrirtækja síðastliðinn föstudag. Ritgerðirnar voru afrakstur hópavinnu sem unnin var í samstarfi við fyrirtæki en hóparnir áttu að finna lausnir við ýmsum áskorunum í rekstri fyrirtækjanna. Hóparnir voru skipaðir fimm nemendum hver og hófu þeir vinnu við verkefnið í nóvember á síðasta ári.

Fjölbreytt starfsemi skoðuð

Fyrirtækin sem voru samstarfsaðilar í verkefnunum í ár voru Hagar, Icelandair, Sorpa, N1, VÍS, Controlant, KVAN og WOW. Efnistökin voru mjög fjölbreytt; til dæmis lagði einn hópur mat á skipulag móðurfélags og dótturfélaga og kom með tillögu að aukinni samlegð í gegnum skipulagið. Annar greindi tækifæri fyrir aukna sjálfvæðingu og nýtingu gagna fyrir flugfélag í samskiptum við viðskiptavini þess. Sambærilegt verkefni var unnið fyrir tryggingafélag. Þá kom hópur fram með tillögu um það hvernig nýtt skipulag þyrfti til að takast á við mjög hraðan innri vöxt. Enn annar hópur mat þróun á neytendahegðun hvað varðar neyslu tilbúinna rétta og lagði upp nýja stefnu fyrir stóran smásala.

Horfðu á heildarmyndina

Að sögn Þrösts Olafs Sigurjónssonar, dósents við viðskiptadeild HR og leiðbeinanda í námskeiðinu, horfðu hóparnir á stóru myndina í lausnum sínum. „Ef einhver samnefnari var með verkefnum MBA-nemanna þetta árið, þá var það annars vegar mat á mögulegum breytingum á heilu atvinnugreinunum vegna nýrra viðskiptamódela og hins vegar skoðun á skipulagi fyrirtækja og getu til að takast á við breytingar.“

Nemendur hófu varnir sínar á kynningum en í kjölfarið tóku við spurningar frá dómnefnd. Að endingu voru umræður meðal nemanna, dómnefndar og fulltrúa fyrirtækjanna sem viðstaddir voru varnirnar.

Í dómnefndum sátu:

  • Liv Bergþórsdóttir (NOVA)
  • Hjörleifur Pálsson (HR)
  • Björn Víglundsson (Vodafone)
  • Margrét Guðmundsdóttir (Icepharma)
  • Hrund Rudólfsdóttir (Veritas)
  • Bogi Þór Siguroddsson (JR)
  • Ómar Svavarsson (Securitas)
  • Sigríður Olgeirsdóttir (Íslandsbanki)
  • Eggert Benedikt (Grandi/N1)

Hópur fólks stendur í röð fyrir framan merki MBA námsinsÞröstur Olaf Sigurjónsson ásamt Hrund Rudólfsdóttir (Veritas), Boga Þór Siguroddssyni (JR) og Margréti Guðmundsdóttur (Icepharma).
MBA-domnefnd-1Þröstur ásamt þeim Birni Víglundssyni (Vodafone), Liv Bergþórsdóttur (NOVA) og Hjörleifi Pálssyni (HR).
MBA-domnefnd-3

Ómar Svavarsson (Securitas), Sigríður Olgeirsdóttir (Íslandsbanki) og Eggert Benedikt (Grandi/N1) ásamt Þresti Olaf.