MBA-nemar kynntu lausnir sínar fyrir stjórnendum
Níu hópar í útskriftarárgangi MBA-nema við viðskiptadeild HR vörðu ritgerðir sínar fyrir dómnefnd sem skipuð var stjórnarmönnum og stjórnendum íslenskra fyrirtækja síðastliðinn föstudag. Ritgerðirnar voru afrakstur hópavinnu sem unnin var í samstarfi við fyrirtæki en hóparnir áttu að finna lausnir við ýmsum áskorunum í rekstri fyrirtækjanna. Hóparnir voru skipaðir fimm nemendum hver og hófu þeir vinnu við verkefnið í nóvember á síðasta ári.
Fjölbreytt starfsemi skoðuð
Fyrirtækin sem voru samstarfsaðilar í verkefnunum í ár voru Hagar, Icelandair, Sorpa, N1, VÍS, Controlant, KVAN og WOW. Efnistökin voru mjög fjölbreytt; til dæmis lagði einn hópur mat á skipulag móðurfélags og dótturfélaga og kom með tillögu að aukinni samlegð í gegnum skipulagið. Annar greindi tækifæri fyrir aukna sjálfvæðingu og nýtingu gagna fyrir flugfélag í samskiptum við viðskiptavini þess. Sambærilegt verkefni var unnið fyrir tryggingafélag. Þá kom hópur fram með tillögu um það hvernig nýtt skipulag þyrfti til að takast á við mjög hraðan innri vöxt. Enn annar hópur mat þróun á neytendahegðun hvað varðar neyslu tilbúinna rétta og lagði upp nýja stefnu fyrir stóran smásala.
Horfðu á heildarmyndina
Að sögn Þrösts Olafs Sigurjónssonar, dósents við viðskiptadeild HR og leiðbeinanda í námskeiðinu, horfðu hóparnir á stóru myndina í lausnum sínum. „Ef einhver samnefnari var með verkefnum MBA-nemanna þetta árið, þá var það annars vegar mat á mögulegum breytingum á heilu atvinnugreinunum vegna nýrra viðskiptamódela og hins vegar skoðun á skipulagi fyrirtækja og getu til að takast á við breytingar.“
Nemendur hófu varnir sínar á kynningum en í kjölfarið tóku við spurningar frá dómnefnd. Að endingu voru umræður meðal nemanna, dómnefndar og fulltrúa fyrirtækjanna sem viðstaddir voru varnirnar.
Í dómnefndum sátu:
- Liv Bergþórsdóttir (NOVA)
- Hjörleifur Pálsson (HR)
- Björn Víglundsson (Vodafone)
- Margrét Guðmundsdóttir (Icepharma)
- Hrund Rudólfsdóttir (Veritas)
- Bogi Þór Siguroddsson (JR)
- Ómar Svavarsson (Securitas)
- Sigríður Olgeirsdóttir (Íslandsbanki)
- Eggert Benedikt (Grandi/N1)
Þröstur Olaf Sigurjónsson ásamt Hrund Rudólfsdóttir (Veritas), Boga Þór Siguroddssyni (JR) og Margréti Guðmundsdóttur (Icepharma).
Þröstur ásamt þeim Birni Víglundssyni (Vodafone), Liv Bergþórsdóttur (NOVA) og Hjörleifi Pálssyni (HR).
Ómar Svavarsson (Securitas), Sigríður Olgeirsdóttir (Íslandsbanki) og Eggert Benedikt (Grandi/N1) ásamt Þresti Olaf.