Fréttir eftir árum


Fréttir

MBA-nemar vinna lokaverkefni með sprotafyrirtækjum og MITdesignX

19.11.2019

MBA-námið við Háskólann í Reykjavík hefur þróað námskeið í samstarfi við MITdesignX nýsköpunarmiðstöðina við MIT háskólann í Boston og Icelandic Startups sem er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Í lokaverkefni sínu munu nemendur þróa vaxtarstefnu fyrir íslensk sprotafyrirtæki. Náminu lýkur á þriggja daga ferð til Boston þar sem nemendur kynna tillögur sínar og fá endurgjöf frá sérfræðingum MIT.

Markmiðið er að veita nemendum þekkingu og reynslu á sviði alþjóðlegrar nýsköpunar og að skapa leiðir fyrir íslensk sprotafyrirtæki til að vaxa á alþjóðlegum markaði.

Nemendur ljúka fjórum vinnustofum og fór fyrsta vinnustofan fram í HR um um síðustu helgi. Sú fjórða og síðasta verður í apríl í Boston, en þar munu nemendur kynna tillögur sínar fyrir sérfræðingum MIT og úr atvinnulífinu. Þess á milli vinna nemendur að gagnaöflun og úrlausn verkefna og funda reglulega með leiðbeinendum.

MBA-final-project-MIT-BostonÍ byrjun námskeiðsins munu nemendurnir greina núverandi starfsemi og áætlanir fyrirtækja sem hafa farið í gegnum Icelandic Startups viðskiptahraðalinn. Á þeim grunni munu þeir þróa ítarlegar tillögur um hvernig fyrirtækin geti vaxið á innlendum og alþjóðlegum markaði. Tillögurnar lúta m.a. að vöruþróun, öflun nýrra viðskiptavina, rekstri og fjármögnun. Unnið er samkvæmt þverfaglegri aðferðafræði MITdesignX, þar sem þarfir og væntingar viðskiptavina eru í öndvegi og áhersla er lögð á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.

Spennandi viðbót

Dr. Auður Arna Arnardóttir, forstöðumaður MBA námsins við HR er að vonum ánægð með samninginn við MITdesignX. „MBA-námið í HR er alþjóðlegt nám þar sem nemendur njóta leiðsagnar kennara úr bestu viðskiptaháskólum heims og þetta nýja samstarf okkar við MITdesignX er virkilega spennandi viðbót við þá flóru. Það gefur nemendum okkar tækifæri til að nýta þá þekkingu og færni sem þeir hafa áunnið sér náminu í alþjóðlegum nýsköpunarverkefnum með spennandi fyrirtækjum, og fá leiðsögn og endurgjöf frá færustu sérfræðingum MIT, HR og atvinnulífsins, bæði hér heima og í Boston.“

Alþjóðlegt nám

Kennarar í MBA-námi HR koma fá mörgum bestu viðskiptaháskólum heims, vestan hafs og austan, t.d. frá IESE í Barcelona og Madrid á Spáni og New York, Richard Ivey og Rotham í Kanada, MIT og UVA í Bandaríkjunum, London Business School og BI í Noregi. Námið hefur hlotið alþjóðlega AMBA vottun frá Association of MBAs.

MITdesignX

Við MITdesignX nýsköpunarmiðstöðina við Massachusetts Institute of Technology er m.a. boðið upp á framhaldsnám á sviði nýsköpunar, þróun á nýjum viðskiptatækifærum og lausnum við brýnum viðfangsefnum borga og umhverfis.