Fréttir eftir árum


Fréttir

MBA nemendur vinna að stefnumótun íslenskra sprotafyrirtækja með sérfræðingum MIT DesignX

„Þetta er verkefnið þar sem allt sem við höfum lært í MBA náminu kemur saman!“

21.4.2021

Nýverið luku nemendur í MBA náminu við Háskólann í Reykjavík kynningu á lokaverkefnum sínum þar sem aðferðafræði MIT DesignX var nýtt við ráðgjöf til íslenskra sprotafyrirtækja. Aðferðafræðin er þverfagleg og ætluð fyrir hönnun og skölun sprotafyrirtækja. MIT er einn fremsti háskóli heims þegar kemur að því að temja nemendum frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun.

https://vimeo.com/534850298

Sérfræðingar frá MIT og HR voru nemendum innan handar er þeir þróuðu vaxtarkort fyrir íslensk sprotafyrirtæki í samvinnu við stofnendur þeirra. Vaxtarkortin byggja á ítarlegri greiningu á þeim viðskiptahugmyndum sem fyrirtækin byggja á, með þarfir viðskiptavina, uppbyggingu og framtíðarmöguleika að leiðarljósi. Sprotafyrirtækin sem um ræðir eru:

Evolytes 

www.evolytes.com

Eylíf health products  

www.eylif.is

Feed the Viking 

https://feedtheviking.com/

Sling 

www.getsling.com

Snorricam  

https://www.snorricam.com/

Unimaze 

www.unimaze.com  

Vinnan við verkefnið hófst í október þegar nemendur hittu fulltrúa fyrirtækjanna og skipulögðu vinnuna framundan. Í nóvember og desember öfluðu nemendur gagna og tóku viðtöl við lykilfólk innan fyrirtækjanna auk þess að rýna í gögn til þess að öðlast dýpri þekkingu á starfseminni.

Frá áramótum hafa svo farið fram fjórar vinnustofur en sú síðasta hefði átt að fara fram í MIT í Boston en vegna heimsfaraldursins kynntu nemendur verkefni sín fyrir prófessorum í MIT gegnum fjarfundabúnað.

Á síðustu vinnustofunni fór fram ítarleg kynning og nemendur afhentu skýrslu um verkefnið og fengu endurgjöf frá sérfræðingum í MIT og vinna út frá henni lokaritgerð áfangans.

Umsagnir nemenda um námskeiðið

Ólöf Viktorsdóttir, yfirlæknir svæfinga- og gjörgæslulækninga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi

„Í lokaverkefninu okkar vorum við svo heppin að fá að vinna með Sling, nýsköpunarfyrirtæki sem hefur þróað verkfæri fyrir vinnuveitendur til að skipuleggja viðveru og eiga samskipti við starfsmenn. Við nálguðumst þetta verkefni sem ráðgjafar, greindum raunveruleg vandamál sem fyrirtækið gæti staðið frammi fyrir og veittum ráðleggingar.

MicrosoftTeams-image-14-

Við unnum verkefnið með því að fara með Sling í gegnum vel mótaða umgjörð sem er þróuð af MIT DesignX nýsköpunarmiðstöðinni, sem gerir okkur kleift að greina og meta alla þætti sem sprotafyrirtæki þarf að huga að í hverju skrefi í sinni vegferð. Þetta er verkefnið þar sem allt sem við höfum lært í MBA náminu kemur saman!

Við höfum virkilega notið samstarfsins við Helga Hermannsson, forstjóra Sling, og teymisins alls sem hefur gefið okkur frábæra innsýn í heim frumkvöðla. Aðferðarfræðin sem notuð er í í námskeiðinu er frábært verkfæri fyrir frumkvöðla framtíðarinnar.“


Stefán Ari Stefánsson, mannauðsstjóri RB:

„Hópurinn minn og ég unnum lokaverkefni okkar í MBA náminu með Feed the Viking sem er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem framleiðir harðfisk, þurrkað nauta- og lambakjöt (jerky) úr íslensku hráefni auk s.k. fjallamats (kjötsúpu, fiskisúpu og vegan fjallamat).

MicrosoftTeams-image-12-

Samstarfið innan hópsins og við fyrirtækið gekk mjög vel og það eru algjör forréttindi að fá að kafa svona djúpt ofan í rekstur og innviði fyrirtækis sem er að hasla sér völl á Íslandi sem og á erlendum mörkuðum. Eigendur fyrirtækisins þeir Friðrik Guðjónsson og Ari Karlsson hafa verið okkur afar hjálplegir. 

Markmiðið er svo auðvitað að úr verkefninu komi tillögur sem geti hjálpað fyrirtækinu til að vaxa og dafna og aðferðarfræði MIT hefur nýst okkur afar vel. Eitt er víst og það er að óhætt er að mæla með þessum vörum og uppáhaldið mitt er þurrkaða lambakjötið!“


Dögg Hauksdóttir, kvensjúkdómalæknir:

„Hópurinn minn vann greiningu á sprotafyrirtækinu Eylíf sem er á sínu fyrsta ári í rekstri og einblínir á framleiðslu fæðubótaefna. Það hafa verið forréttindi að fá innsýn í hugarfar frumkvöðuls og tækifæri til að greina viðskiptamódel sem er í stöðugri þróun.

Dogg-Hauksdottir-MBA2021-

Ólöf Rún Tryggvadóttir, stofnandi Eylífar, var afar örlát á tíma sinn með okkur og deildi með okkur reynslu, tengiliðum og upplýsingum sem gáfu okkur ítarlega þekkingu á starfseminni. Það sem við tökum meðal annars með okkur út úr verkefninu er að flækjustigið við stofnun og rekstur fyrirtækis er meira en við bjuggumst við og það þarf fullkomið jafnvægi á milli frumkvöðlaanda, skipulagshæfileika, viðskiptaþekkingar og úthalds til að ná árangri. 

Aðferðarfræði MIT DesignX var mjög gagnleg og gaf okkur ramma til að fara skipulega í gegnum helstu þætti frumkvöðlafyrirtækis. Aðferðarfræðin mun án efa nýtast okkur vel í framtíðinni.“