Fréttir eftir árum


Fréttir

Með heildarmyndina á hreinu

27.10.2014

Guðmundur Ingi ÞorvaldssonGuðmundur Ingi Þorvaldsson hefur verið tilnefndur sem MBA-nemi ársins 2014. Hann útskrifaðist með MBA-gráðu síðastliðið vor frá Háskólanum í Reykjavík. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Lundúnum þann 30. október nk. þar sem Guðmundur verður viðstaddur ásamt Kristjáni Vigfússyni, forstöðumanni MBA-náms HR. Það eru samtökin AMBA sem standa að verðlaununum á hverju ári en þau hafa það að markmiði að efla viðskiptamenntun á framhaldsstigi í Evrópu. 


Guðmundur tók nýlega við starfi framkvæmdastjóra Tjarnarbíós. „Sem þýðir í stuttu máli að ég ber ábyrgð á rekstrinum, og verkefnavali hússins“ útskýrir hann í fáum orðum. Í leikhúsinu við Tjörnina er Guðmundur á heimavelli hann er mikill leikhúsmaður og vill eða eigin sögn sjá veg íslenskra sviðslista sem mestan. Hann hefur afar skýra sýn á þá starfsemi sem hann vill sjá innan veggja Tjarnarbíós. „Ég var í meistaranámi í gjörningalist í London árið 2008. Einn af kennurunum mínum þar var einn af meðlimum leikhúshóps sem kallar sig Shunt. Uppbygging þeirrar starfsemi er alveg ótrúleg og eiginlega fullkomin í mínum huga. Shunt er 10 manna hópu sem setur upp sýningu á tveggja ára fresti eða svo. Þegar þau voru ekki að sýna, skiptust þau á að stýra listsýningum í stóru rými undir London Bridge lestarstöðinni. Þar fengu þau um 30 listamenn og hópa til að halda samsýningu í hverri viku svo þar var alltaf eitthvað nýtt og ferskt að sjá. Sýningarrýmið var svo líka bar sem svo breytist í næturklúbb eftir miðnætti og þannig fengu þau pening til að nota í að setja upp listsýningar inn á milli þess að stunda rannsóknir. Þarna var alltaf pakkað, alltaf fullt. Þetta var eins og vera staddur í Lísu í Undralandi. Ég tók þátt í tveimur sýningum með þeim og varð í raun eins og heimalningur þarna og mátti setja upp það sem ég vildi. Ég fann hreinlega á mér að ég varð að byggja upp svona leikhús á Íslandi.“

Kunni lítið í Excel

Til að láta drauminn verða að veruleika sá Guðmundur fljótt að hann þyrfti að læra á rekstur og stjórnun. Hann hafði tröllatrú á hugmyndinni en vantaði tæki til að útfæra hana. „Það fór svo þannig að ég skráði mig í MBA-námið í HR, sem betur fer. Í dag lít ég hreinlega á það sem guðsgjöf að hafa farið í þetta nám. Allt sem ég lærði í MBA-náminu kemur beint hingað inn í starf mitt í dag, allt sem viðkemur því að reka svona starfsemi. Hér er lýðræði; allt bókhald er galopið og ég legg mikla áherslu á gagnsæi í rekstri og ég hef bara 25% vægi í ákvörðunum sem eru teknar um hvað er sett upp hérna.“ Áður en námið hófst segist Guðmundur varla hafa opnað Excel eða PowerPoint. „Fyrstu námskeiðin voru í hagfræði og bókhaldi og það var mjög erfitt. Á þessum tíma hafði mér boðist að stökkva inn í Vesturportssýngu í Kaupmannahöfn og fékk leyfi frá skólanum til að fara utan. Dagarnir í Kaupmannahöfn voru því þannig að ég lærði til klukkan fimm eða sex á daginn og fór svo og sýndi. Með því að vera svona reglufastur tókst mér að komast í gegnum þetta. Það kom mér líka skemmtilega á óvart að ég hélt ég væri vanviti í stærðfræði en svo sá ég þegar við fórum í gegnum ýmsi raundæmi úr rekstri fyrirtækja að ég sá vandamálið alveg jafn vel og aðrir, sá hvað myndi ganga upp og hvað ekki. Kannski á annan hátt en aðrir, en þá með mínum augum. Það jók sjálfstraustið mikið að finna þetta.“

Stjórnandi á ekki að kunna allt

Guðmundur segist strax hafa orðið var við þá miklu áherslu sem lögð er á samvinnu í MBA-náminu. „Það er strax í byrjun lögð áhersla á meðvitund um hópinn sem þú ert í og það gengur í gegnum allt námið, enda á stjórnandi á ekki að kunna allt. Í dag er ég með 30 manna her á bak við mig sem ég get alltaf leitað til sem er fólkið sem var með mér í bekk. Í þeim hópi eru verkfræðingar, bankastarfsmenn, fjölmiðlafólk, endurskoðendur og sjálfstæðir atvinnurekendur.“ Þetta telur hann vera afar dýrmætt, ekki síst fyrir andlegu hliðina. „Stjórnendur bera ábyrgð og það getur verið erfitt, eins og bara það að reka fólk úr vinnu. Þá verður maður alltaf vera með heildarmyndina á hreinu sem í mínu tilviki eru framtíðarhagsmunir íslenskra sviðslista. Það hefur veitt mér mikinn styrk að hafa skýra sýn á hvað mig langar að gera.“

Spuni í Tjarnarbíói

Trúir á samtalið

Sú áhersla sem lögð er á samvinnu í MBA-náminu á vel við Guðmund. „Þessi leikhússtarfsemi sem mig langar að efla hér á landi passar ekki alltaf inn í styrkjakerfið því þar þarftu alltaf að segja í umsókn hver afurðin er. En skapar það endilega betri list? Það er spurning. Þetta leikhús gengur út á samstarf, nýsköpun og fjölbreytni. . Því meira sem við vinnum saman, því betri verðum við og þeim mun betri verða sýningarnar okkar og við getum farið að flytja meira út. Góð fordæmi að þessu eru íslenskt tónlistarfólk og dansarar. Þau hafa náð með frábærum hætti að flytja út sína listsköpun.“ Þess vegna vill hann reka fjölleikhús með kaffihúsi til að styðja við reksturinn. Nú þegar hafa verið settar upp nokkrar sýningar í Tjarnarbíói undir merkjum Vinnslunnar, sem er hópur nokkurra íslenskra sviðslistamanna. Sýningin Strengir verður frumsýnd þann 23. október nk.  „Við vinnum og spinnum saman. Ég trúi á þetta samtal.“

AMBA samtökin hafa það að markmiði að efla menntun á því sviði og gæði MBA-náms í Evrópu. Samtökin staðfestu gæði MBA-náms HR árið 2011 með sérstakri vottun.