Fréttir eftir árum


Fréttir

Meistaranám í Gervigreind og máltækni

Benedikt Geir Jóhannesson-Samhengið segir til um réttan Jón Sigurðsson

2.6.2022

Benedikt Geir Jóhannesson hefur nýlokið við að verja meistararitgerð sína í Gervigreind og máltækni er ber heitið Entity Linking for Icelandic eða Sjálfvirk einræðing íslenskra sérnafna. Ritgerðin er hluti af verkefni sem HR, HÍ og Snjallgögn koma að og hlaut styrk úr Markáætlun í tungu og tækni árið 2021 til þriggja ára.

Nafnaeinræðing er sérstakt svið innan máltækni sem felst í því að einræða nafnaeiningar, mannanöfn, fyrirtæki, stofnanir og staði og ýmislegt annað í texta á sjálfvirkan hátt. Þegar til dæmis sérnafnið Jón Sigurðsson kemur fyrir í texta þá eru ansi margir einstaklingar sem koma til greina. Hægt er að nota samhengið til að spá fyrir um hvaða Jón Sigurðsson er um að ræða og tengja þá viðkomandi við til að mynda Wikipedia-grein. 

Tolvunarfraedi-MSc_Sara-og-Benedikt_ICE_1732

Benedikt Geir Jóhannesson hefur nýlokið við að verja meistararitgerð sína í Gervigreind og máltækni. 

„Gervigreind og máltækni eru mjög spennandi viðfangsefni og reynsla mín af náminu í HR hefur verið mjög góð. Ég hóf meistaranám í tölvunarfræði en á fyrstu önninni tók ég áfanga sem heitir Málvinnsla eða Natural Language Processing og fékk þar góða kynningu á því hvað máltækni er og hvernig gervigreind er beitt til þess að leysa hin ýmsu verkefni á þessu sviði. Þetta kveikti áhuga minn á viðfangsefninu og varð til þess að ég færði mig yfir í meistaranám í Gervigreind og máltækni,“ segir Benedikt.

Meistaranám í gervigreind og máltækni við Háskólann í Reykjavík veitir nemendum eftirsótta sérhæfingu til að starfa á þessu sviði, hvort heldur á íslenskum eða alþjóðlegum vettvangi. Námið er þverfaglegt og lýtur annars vegar að sjálfstæðum rannsóknum og hins vegar að þróun hugbúnaðar og lausna sem geta unnið með og skilið náttúruleg tungumál.

Umsóknarfrestur er til 5. júní næstkomandi. Nánari upplýsingar um námið eru hérna