Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Meistaranám við viðskiptadeild HR nú 14 mánuðir í stað tveggja ára

9.3.2018

Meistaranám við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík verður 14 mánuðir að lengd í stað tveggja ára áður, frá og með næsta hausti. Meistaranemar munu geta lokið náminu á rúmu ári með því að bæta við sumarönn en það er nýjung í fyrirkomulagi náms við deildina. Einnig hefur viðskiptadeild sett á stofn tvær nýjar námsbrautir í meistaranámi; stjórnun nýsköpunar og stjórnun í ferðaþjónustu. Klínískt meistaranám í sálfræði og MBA nám, sem einnig er kennt við deildina, verður eftir sem áður tvö ár.

Raunhæfir kostir

Að geta lokið meistaranámi á rúmu ári í stað tveggja gerir fólki sem vill styrkja stöðu sína eða breyta um stefnu, auðveldara fyrir. Með þessu býður viðskiptadeild HR upp á meistaranám fyrir fólk í atvinnuumhverfi nútímans, með meiri sveigjanleika, án þess að slá af kröfum. Fyrir þá sem vilja ljúka meistaranámi á lengri tíma, með vinnu, verður það áfram í boði.

Páll Melsted Ríkharðsson, forseti viðskiptadeildar, segir að nýjungar í skipulagi meistaranámsins séu í samræmi við stefnu HR um að veita nemendum menntun sem býr þá undir framtíðarstörf og fjórðu iðnbyltinguna. „Samfélagið sem við búum í, hvort sem litið er út í heim eða hér innanlands, gerir ráð fyrir því að fólk muni sækja sér nýja þekkingu reglulega. Þá verðum við að bregðast við því með því að bjóða fólki raunhæfa kosti og fjölbreyttar námsbrautir.“

Tvær nýjar meistaranámsbrautir

Viðskiptadeild HR hefur opnað fyrir umsóknir í nýjar brautir í meistaranámi í stjórnun ferðaþjónustu og stjórnun nýsköpunar.

Stjórnun í ferðaþjónstu

Í meistaranámi í stjórnun ferðaþjónustu nýtur háskólinn góðs af samstarfi við Háskólann í Suður-Maine í Bandaríkjunum en kennarar þaðan koma að kennslu í námsbrautinni. Maine-fylki er einn vinsælasti ferðamannastaður Norður-Ameríku og þar hefur orðið til mikil þekking á stjórnun í ferðaþjónustu á síðustu áratugum. Einnig hefur verið skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf við Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, sem felst í því að sérfræðingar innan viðskiptadeildar HR hafa aðkomu að árangursmælingum á fræðslu og könnun á þýðingu bættrar stjórnendafræðsla fyrir afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Stjórnun nýsköpunar

HR er löngu orðinn þekktur fyrir áherslur sínar á nýsköpun, enda nýsköpun forsenda framfara og þróunar. Páll segir nauðsynlegt að mennta mannauð sem getur tekst á við breytingar í atvinnuumhverfi og samfélaginu öllu. „Þess vegna erum við afar ánægð með að geta boðið upp á meistaranám í stjórnun nýsköpunar. Störfin sem við þekkjum í dag verða mörg hver orðin úrelt eftir örfá ár eða áratugi. Í fyrirtækjum þarf að vera stöðug framþróun og nemendur sem eru að útskrifast úr háskólum í dag þurfa að sjá tækifæri í þessum breytingum, til dæmis til að stofna ný fyrirtæki, en einnig í starfsemi sem þegar er til staðar, hvort sem það er hjá fyrirtækjum eða hinu opinbera.“

Viðskiptadeild HR með sérstöðu

Með þessum breytingum er viðskiptadeild HR að marka sér sérstöðu, en á sama tíma að taka þátt í þróun sem er að eiga sér stað í viðskiptaháskólum í Evrópu og Bandaríkjunum. Reikna má með að nýja fyrirkomulagið henti erlendum meistaranemum, sem fer sífellt fjölgandi við deildina, vel. „Við höfum margt að bjóða erlendum nemum, skólagjöldin í meistaranámi við HR eru ekki há í alþjóðlegum samanburði og gæði námsins eru mikil. Við höfum á að skipa frábærum kennurum og fjöldi erlendra kennara frá virtum viðskiptaháskólum kemur reglulega til að kenna námskeið. Við stöndum því mjög vel í alþjóðlegri samkeppni og náum enn betra samkeppnisforskoti með þessari breytingu,“ segir Páll.

Brautir í 14 mánaða meistaranámi

Framboð 14 mánaða meistaranáms við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík er frá haustinu 2018 eftirfarandi:

Kynningarfundir um námsleiðir í meistaranámi við viðskiptadeild HR verða haldnir í mars og finna má upplýsingar um dagsetningu þeirra á vef HR:

Yfirlit yfir viðburði