Fréttir eftir árum


Fréttir

Meistaranemar við lagadeild HR skrifa um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum á Litla-Hrauni

2.6.2016

Nemendur í ML-námi við lagadeild Háskólans í Reykjavík hafa fengið tvær greinar birtar eftir sig í Verndarblaðinu, tímariti Verndar, samtaka um fangahjálp, sem fjalla um stórfelldan vanda í fangelsinu á Litla-Hrauni af völdum lyfseðilsskyldra lyfja, ekki síst Suboxone sem SÁÁ notar í meðferð sinni á ópíumfíklum.

Suboxone er ásamt Rivotril það lyfseðilsskylda lyf sem er aðallega misnotað innan veggja fangelsisins. Rúmlega 50 tilvik um misnotkun á Suboxone komu upp á Litla-Hrauni árið 2015. Um það bil fjórðungur agaviðurlaga sem fangar voru beittir á því ári var vegna óleyfilegrar neyslu á lyfinu.

Unknown

Ný tegund af fíklum

Haft er eftir Jóni Þór Kvaran, meðferðarráðgjafa á Litla-Hrauni, að þótt Suboxone bjargi mannslífum, þegar það er rétt notað, sé það reynsla starfsmanna fangelsisins að aðrir fangar en þeir, sem fá því ávísað  hjá lækni, reyni að verða sér úti um það með ólögmætum hætti til að komast í vímu. „Við erum að búa til nýja tegund af fíklum,“ segir Jón Þór. Þá er haft eftir Þórarni Tyrfingssyni, forstjóra Sjúkrahússins Vogs, að lyfið „svínvirki“ við fíknlækningar. Ályktun háskólanemanna er að Suboxone sé „tvíeggjað sverð“.

Greinarnar, sem heita „Neysla læknadóps á Litla-Hrauni“ og „Fangadópið Suboxone“, voru skrifaðar sem liður í verkefni í námskeiði Stefáns Eiríkssonar og Svölu Ísfeld Ólafsdóttur um ofbeldis- og fíkniefnabrot. Höfundar fyrrnefndu greinarinnar eru Anna Margrét Pétursdóttir, Fanný Ósk Mellbin, Hanna Guðmundsdóttir, Hildur Þorgeirsdóttir, Lovísa Arnardóttir og Pétur Hafstein, en höfundar þeirrar síðarnefndu Eyrún Viktorsdóttir, Jakob Pétursson, María Sjöfn Árnadóttir, Vigdís Sigríður Jóhannsdóttir, Þór Jónsson og Þórhildur Kristjánsdóttir.

Verndarblaðið er að finna á www.vernd.is.