Metfjöldi brautskráðist frá HR
Alls 754 nemendur brautskráðust frá HR 18. júní
Alls brautskráðust 754 nemendur frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn laugardaginn 18. júní. Aldrei hafi fleiri nemendur verið brautskráðir frá skólanum.
Í ræðum sviðsforseta samfélags- og tæknisviðs, Bryndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur og Gísla Hjálmtýssonar, í fjarveru rektors, Ragnhildar Helgadóttur, kom meðal annars fram að kjarnahlutverk Háskólans í Reykjavík væri að skapa og miðla þekkingu til að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina. Þannig væri skapaður frjór jarðvegur fyrir hagnýtingu þekkingar, tækifæra og tækni með rannsóknum, kennslu og nýsköpun. Þetta væri gert í kraftmiklum og lifandi tengslum við atvinnulíf og samfélag.
Hildur Davíðsdóttir hélt ræðu fyrir hönd tæknisviðs en hún útskrifaðist með BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði. Hildur líkti námi sínu við það þegar hún kleif Hvannadalshnjúk fyrir skemmstu og líkt og í krefjandi fjallgöngu þarf í erfiðu námi að treysta á sjálft sig, félaga sína, sýna þrautseigju og þiggja hjálp. „Brattasti kafli göngunnar eru síðustu 200 metrarnir upp á sjálfan hnjúkinn. Þar duga engin vettlingatök. Reima þarf á sig brodda og hafa ísexi meðferðis. Hér reynir á úthaldið og viljastyrkinn. Undir lok námsins þreyttum við í hugbúnaðarverkfræðinni með eindæmum strembinn áfanga - það var okkar hnjúkur. Þau voru ófá kvöldin sem maður sat sem eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár fyrir framan tölvuna, tilbiðjandi hina og þessa guði. Á endanum hafðist þetta og í dag stöndum við alsæl skýjum ofar í tvöþúsund metra hæð og fögnum glæstum áfanga. Eftir þetta eru okkur allir vegir færir,“ sagði Hildur meðal annars og uppskar mikinn fögnuð samnemenda og annarra gesta við lok flutnings.
Sigurður Guðmundsson flutti fagra tóna fyrir nemendur og gesti af sinni alkunnu snilld.
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, veitti dúxum tæknisviðs viðurkenningu fyrir árangurinn, Þorsteinn Hanning var með hæstu einkunn í verkfræðideild og Bjarni Dagur Thor Kárason í tölvunarfræðideild.
Sandra Sif Gunnarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd nemenda á samfélagssviði. Hún hvatti HR til að nýta það jákvæða sem hlaust af kórónuveirufaraldrinum til þess að stuðla að jafnrétti til náms. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að upptökur fyrirlestra hafi bætt aðgengi nemenda að náminu og gert þeim kleift að aðlaga það betur að sínum þörfum. Það að bjóða upp á upptökur af fyrirlestrum eftir kennslustundir, samhliða staðnámi, myndi ekki aðeins gera námið þægilegra og aðgengilegra fyrir nemendur heldur myndi það einnig gera fleirum kleift að stunda nám, svo sem fötluðum og fjölskyldufólki. Ég vil því hvetja HR til þess að halda áfram á þessari braut,“ sagði Sandra sem hlaut verðlaun bæði frá Viðskiptaráði Íslands og frá sálfræðideildinni fyrir hæstu einkunn í grunnnámi, frábær árangur. Við óskum henni innilega til hamingju og þökkum fyrir kraftmikla ræðu.
Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, veitti dúxum samfélagssviðs viðurkenningu fyrir góðan árangur. Sandra Sif Gunnarsdóttir hlaut, sem fyrr segir, verðlaun fyrir hæstu einkunn í sálfræðideild, Jón Alfreð Sigurðsson í lagadeild, Þórey Hákonardóttir í íþróttafræðideild og Vilhjálmur Forberg Ólafsson í viðskiptadeild.
Alls útskrifuðust 63 með diplómu, 473 úr grunnnámi, 218 úr meistaranámi og fjórir með doktorspróf. Í útskriftarhópnum voru 361 kona og 393 karlar. Flest luku námi frá verkfræðifræðideild háskólans að þessu sinni, eða 180 nemendur, þar af 67 með meistaragráðu. Næststærsti hópurinn brautskráðist frá viðskipta-og tölvunarfræðideild, eða 144 nemendur úr hvorri deild þar af 12 með meistaragráðu frá tölvunarfræðideild og 66 úr viðskiptadeild. Sálfræðideild útskrifaði 99 nemendur, þar af 29 með meistaragráðu. Lagadeild útskrifaði 71 nemendur, þar af 25 með meistaragráðu. Frá iðn- og tæknifræðideild útskrifuðust 66 nemendur og frá íþróttafræðideild 50, þar af 15 úr meistaranámi.
Háskólinn í Reykjavík óskar útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann með ósk um farsæld, vellíðan og bjarta framtíð.