Fréttir eftir árum


Fréttir

Metfjöldi nemenda við Íslenska orkuháskólann í HR

27.8.2015

50 nemendur stunda nú meistaranám í sjálfbærum orkuvísindum og orkuverkfræði við Íslenska orkuháskólann í Háskólanum í Reykjavík og hafa þeir aldrei verið fleiri. Enn fremur hafa 240 nemendur sótt styttri námskeið um endurnýjanlega orku við háskólann í sumar.

Yfir 90% nemenda Íslenska orkuháskólans koma erlendis frá. Flestir koma frá Bandaríkjunum en annars koma nemendur frá öllum heimshornum, m.a. frá Keníu, Brasilíu og Þýskalandi.

Metfjöldi nemenda við Íslenska orkuháskólann

Nemendur Íslenska orkuháskólans í HR í vettvangsferð.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu sterkt orðspor Íslands er á sviði endurnýjanlegrar orku á alþjóðavettvangi, en það byggir á því að við höfum miklu að miðla á þessu sviði. Á því byggir einmitt orkunámið hjá okkur í HR, en við höfum unnið að þróun og eflingu þessu síðustu ár, með Orkuveitu Reykjavíkur og ISOR, í samstarfi við íslensk fyrirtæki og stofnanir. Námið er sett upp og skipulagt fyrir erlenda nemendur, en það nýtist líka íslenskum nemendum og fyrirtækjum sem þarna hafa aðgang að framúrskarandi alþjóðlegu námi,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. „Samvinnan við erlenda háskóla er lykilþáttur í að bjóða upp á besta alþjóðlega nám sem völ er á og erlendu nemendurnir koma með ný sjónarhorn inn í námið sem styrkir okkur og eflir.“

Orkan skoðuð frá öllum hliðum

Aukin nýting endurnýjanlegrar orku er eitt af mikilvægustu viðfangsefnum mannkynsins í dag. Námið tekur á tæknilegum og efnahagslegum þáttum nýtingar orku, en umhverfismál skipa líka stóran sess í starfsemi Íslenska orkuháskólans. Má nefna að allir nemendur taka námskeið í umhverfisáhrifum virkjanaframkvæmda og ferðast víða um land til að kynna sér orku- og umhverfismál. 

„Við leggjum áherslu á að nemendur læri um orku á þverfaglegan hátt, frá ólíkum sjónarhornum viðskipta, tækni, efnahags og laga. Orku- og umhverfismál eru meðal mikilvægustu viðfangsefna sem finnast á heimsvísu og til að fást við þau er nauðsynlegt að hafa bæði djúpa og þverfaglega þekkingu á þeim sviðum sem þar liggja til grundvallar,” segir Ari.

Í ár hefur aukin áhersla verið lögð á að fræða nemendur um nýsköpun, bæði í gegnum námskeið og með náinni samvinnu við Startup Energy Reykjavík sem er hýst í Háskólanum í Reykjavík.

Öflugt samstarf

Markmið Íslenska orkuháskólans í HR er að mennta sérfræðinga framtíðarinnar á sviði endurnýjanlegrar orku. Auk Háskólans í Reykjavík standa Orkuveita Reykjavíkur og Íslenskar orkurannsóknir að náminu. Aðrir samstarfsaðilar eru Landsvirkjun, Arctic Circle, íslenskar verkfræðistofur, rannsóknastofnanir og ýmis samtök í geiranum. Rík áhersla er einnig lögð á  erlent samstarf, meðal annars með samvinnu við Harvard og Tufts háskóla í Bandaríkjunum og Tinajin háskóla í Kína. Framkvæmdastjóri námsins er Halla Hrund Logadóttir.