Fréttir eftir árum


Fréttir

„Metnaðurinn skilaði okkur lengra en milljónastyrkir“

15.5.2018

Willem C. Vis, alþjóðlega málflutningskeppnin, er stærsta keppni sinnar tegundar og er haldin á ári hverju í Vín í Austurríki. Lagadeild HR sendir lið annað hvert ár en árangurinn var einkar glæsilegur núna þar sem lið HR komst í útsláttarkeppni, í annað sinn frá því háskólinn hóf keppni. Með því að taka þátt í keppninni þjálfast laganemar frá öllum heimshornum í tveimur þáttum alþjóðlegs málflutnings, það er, skrifum greinargerða fyrir bæði sækjanda og verjanda og málflutningi fyrir virtum gerðardómurum og þaulreyndum lögmönnum.

Hófu leika í New York

Keppnin í ár fór fram í lok mars. Sjö laganemar við HR höfðu þá verið að undirbúa sig í hálft ár, en þátttaka í keppninni er valfag í meistaranámi. Meðal liðsmanna voru þau Agla Eir Vilhjálmsdóttir, Sigríður María Egilsdóttir og Þröstur Guðmundsson. „Undirbúningstímabil keppninnar var langt og strangt, skil á greinargerðum stönguðust á við lokapróf og jólahátíðina, svo ekki sé minnst á undirbúninginn fyrir munnlega málflutninginn sem þá tók við,“ segir Agla. Auk þeirra Öglu, Sigríðar og Þrastar, voru liðsmenn þau Anna Kristrún Einarsdóttir, Birta Sif Arnardóttir, Erna Leifsdóttir og Hugo Jules Lorain. Leiðbeinandi liðsins og þjálfari var Garðar Víðir Gunnarsson.

Keppnin er mun umfangsmeiri en vika í Vínarborg því út um allan heim eru haldin undirbúningsmót þar sem lið fá að prófa sig áfram við málflutning áður en haldið er út í lokakeppnina. „Við Agla, Þröstur og Hugo hófum leikana í New York um miðjan febrúar og þar gerði maður sér virkilega grein fyrir því hversu hörð samkeppnin er. Jafnvel þó það væri rúmur mánuður í keppnina þá voru liðin mörg hver komin ótrúlega langt, og það var ágætt spark í rassinn að horfa upp á það,“ segir Sigríður.

Malflutningskeppni-1Frá undirbúningskeppninni í New York: Þröstur, Sigríður María, Agla Eir og Hugo Jules.

Eins og Davíð á móti Golíat

„Þar gerði maður sér einnig grein fyrir því hversu misvel liðin voru fjármögnuð, en mörg lið sem við kepptum við þarna úti voru með margar milljónir í styrki á bak við sig og fjöldann allan af þjálfurum. Maður fékk það eiginlega á tilfinninguna að við værum mætt í hringinn á móti Golíat. Á endanum skilaði metnaðurinn okkur þó lengra en milljónirnar mörgum hverjum,“ segir Agla. Næst hélt liðið á undirbúningsmót til Kaupmannahafnar, þar sem Sigríður hlaut verðlaun fyrir stigahæsta málflutningsmann mótsins. Þriðja undirbúningskeppni liðsins var í Búdapest örfáum dögum fyrir lokakeppnina í Vínarborg. Eins og gefur að skilja er þátttakan í keppninni og undirbúningurinn mjög kostnaðarsamur. Liðið leitaði eftir styrkjum úr atvinnulífinu og var svo lánsamt að fá styrki frá lögfræðistofum, verktakafyrirtækjunum, og verkfræðiskrifstofum, þá meðal annars LOGOS, ÍAV, ÍSTAK og VERKÍS og er liðið þessum fyrirtækjum mjög þakklátt fyrir stuðninginn.

Komin í djúpu laugina

Alls tóku 367 háskólar þátt í keppninni í Vín. „Svo komum við þarna út og þar er að sjálfsögðu fjöldinn allur af laganemum sem eru líka búnir að leggja mikið á sig í æfingum. Við vorum því heldur betur komin í djúpu laugina og þurftum bara að muna það sem við höfðum lært og æft okkur í,“ segir Birta. Keppninni í málflutningi er háttað þannig að tveir málflutningsmenn flytja málið hverju sinni fyrir hönd síns skóla. Einn fjallar um formhlið málsins og annar um efnishlið þess. Lið HR keppti alls fimm sinnum úti í Vínarborg og mætti þar háskólum frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Ástralíu, Líbanon og Indlandi.

„Þetta var ansi mikil keyrsla, en við þreyttum fimm keppnir á fimm dögum. Eftirmiðdagar og kvöld fóru svo í að laga og bæta ræðurnar fyrir næsta morgun. Við Sigga enduðum á að flytja málið í öll skiptin, en það er þjálfarinn sem tekur ákvörðun um það hverju sinni. Á milli keppna var svo liðið í undirbúningi við gagnaöflun og fínpússun,“ segir Agla. Eftir fyrstu fjórar keppnirnar komust aðeins 64 stigahæstu liðin áfram og þar með talið lið HR. Þetta er aðeins í annað sinn sem lið HR kemst í útsláttarriðil í þessari hörðu keppni. Eftir að hafa komist áfram lenti liðið á móti liði háskóla frá Indlandi sem endaði í þriðja sæti í heildarkeppninni, en að sögn eins gerðardómarans sem dæmdi þá keppni var mjög mjótt á munum milli liðanna. „Það hefði næstum verið auðveldara fyrir úrvinnsluna eftirá ef þeir hefðu bara rústað okkur þarna,“ segir Sigríður.

Dómarar sem spyrja látlaust

Willem C. Vis er málfutningskeppni í alþjóðlegum gerðardómi, og lýtur álitaefni keppninnar að ágreiningi um alþjóðaviðskipti með lausafé. Liðsmenn þurftu að setja sig inn í reglur um lausafjárkaup, alþjóðlega gerðardómstóla og samningarétt, og vera tilbúnir að fjalla um allt á ensku. „Helsta áskorunin fyrir okkur Íslendingana var að venjast því að dómararnir spurðu stanslaust spurninga á meðan málflutningi stóð. Það er því varla hægt að tala um að við höfum flutt einhverjar sérstakar fyrirfram æfðar ræður, því þú þarft stanslaust að vera tilbúinn að taka við spurningum frá dómurum í miðri ræðu, jafnvel miðri setningu, og svara jafnóðum,“ segir Agla.

„Þú vilt koma ákveðnum rökum á framfæri fyrir hönd skjólstæðings þíns, en tíminn er knappur og því varð maður að passa sig að festast ekki í hverri spurningu. Þess vegna breyttust ræðurnar alltaf í hverri keppni, til að taka mið af spurningunum hverju sinni. Ræðustíllinn er í raun sá að þú sért að eiga, mjög kurteisar, samræður við dómarana um málið,“ bætir Sigríður við. Stelpurnar segja að vissulega hafi þetta ýtt þeim út fyrir þægindarammann, en að spurningaflóðið hafi verið ákjósanlegt að því leytinu til að þetta gefi aðilum málsins gott færi á að takast á við þær efasemdir sem dómarinn hefur eftir að hafa kynnt sér skriflegan málatilbúnað, og gefi þannig málflutningnum meira vægi.

Getur verið gott að viðurkenna veikleikana

Liðið dró einnig mikinn lærdóm af því að reka málið frá báðum hliðum. „Með því að kafa djúpt í báðar hliðar komu í ljós styrkleikar og veikleikar sem hægt var að beita í málflutningi mótaðilans. Þetta kenndi okkur líka að það getur verið árangursríkt að vera fyrri til að viðurkenna veikleikana í málstaðnum sem maður er að sækja eða verja og slá þannig hugsanlega vopnin úr höndum mótaðilans. Eins eru gerðardómararnir naskir á að finna veiku punktana, sérstaklega í svona keppni þar sem þeir hafa heyrt sömu rökin oft áður. Þá er listin að stilla málinu sínu upp þannig að þú fáir sem fæstar óþægilegar spurningar sem taka tíma frá því sem þú vilt raunverulega koma á framfæri,“ segir Þröstur. 

Keppnin er haldin árlega í Vínarborg í síðustu vikunni fyrir páska og var þetta sú tuttugasta og fimmta og verða vinsældir hennar og umfang sífellt meiri ár frá ári. Að keppninni standa eftirfarandi skólar og stofnanir: Pace University, Queen Mary (University of London), Stockholm University, University of Vienna, Austrian Arbitration Association, Austrian Federal Economic Chamber, Moot Alumni Association, og United Nations Commission on International Trade Law.

Hópur fólks stendur í hóp í tröppum og horfir í myndavélinaAllt liðið í keppninni í Vín: Frá vinstri: Anna Kristrún, Birta Sif, Garðar Víðir (þjálfari), Sigríður María, Hugo, Agla Eir, Erna og Þröstur.

https://vismoot.pace.edu/