Fréttir eftir árum


Fréttir

„Mikilvægt að fá fleiri stráka inn í fagið“

Ásgrímur Hólm meistaranemi í klínískri sálfræði fagnar aukinni umræðu um andlega heilsu.

27.5.2022

Ásgrímur Hólm er 29 ára nemi í klínískri sálfræði frá Keflavík sem hefur spilað fótbolta með Haukum, Keflavík og Njarðvík. Fótboltinn hefur verið stór partur af lífi hans en undanfarin ár hefur sálfræðin tekið stærra pláss. Ásgrímur er að ljúka sínu fyrsta ári í meistaranámi í klínískri sálfræði.

Undanfarin ár hefur umræðan aukist töluvert um andlega líðan stráka og er sú þróun frábær. Ég man vel eftir álaginu í fótboltanum á unglingsárunum og pressunni sem fylgdi. Á þeim tíma voru fáir strákar sem ræddu andlega líðan og var tíðarandinn sá að það ætti frekar að harka af sér. Þessi hugsunarháttur getur haft slæm áhrif fyrir þá og er því fagnaðarefni að umræða um andlega heilsu þeirra sé að aukast. En til að halda áfram á þessari braut er mikilvægt að fá fleiri stráka inn í þetta skemmtilega fag.


Ásgrímur lauk grunnnámi í sálfræði árið 2018 og fór um leið að vinna á Réttar- og öryggisgeðdeild á Kleppi.

Á þeim tíma var ég ekki viss í hvaða framhaldsnám ég vildi fara þar sem fjölbreytt úrval er í boði eftir grunnnámið. En í gegnum þessi þrjú ár, þar sem ég kynntist vinnu klínískra sálfræðinga og vann með skjólstæðingum sem glímdu við ýmsar geðraskanir, var ég sannfærður um að hvaða framhaldsnám ég sóttist eftir. Ég sótti um framhaldsnám í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík í fyrra og var því að ljúka við fyrsta árið. Að námi loknu sé ég fyrir mér að vinna með kvíðaraskanir eins og félagsfælni, víðáttufælni og almenna kvíðaröskun. Möguleikarnir eru hins vegar margir og gæti það vel verið að ég skipti um skoðun þegar að ég byrja í starfsnámi á næstu önn.

Maður stendur við stigahandrið, horfir brosandi í átt að myndavélinni.
Nám í sálfræði er fyrir þá sem vilja skilja hugsun, hegðun og tilfinningar fólks. Það hentar þeim sem hafa áhuga á því hvernig má hafa áhrif á hegðun einstaklinga og hópa, langar að bæta velferð og heilsu fólks og vilja stunda sálfræðilegar tilraunir og rannsóknir. Umsóknarfrestur um nám í sálfræði í HR er til 5. júní. Smelltu hérna til að skoða nánari upplýsingar um sálfræði í HR.