Mikilvægt að þolendur nauðgana segi frá
Ráðstefnan Þögnin, skömmin og kerfið var haldin í Háskólanum í Reykjavík síðasta föstudag. Umfjöllunarefnið var nauðgun og var málefnið skoðað frá ýmsum hliðum; réttarfarslegum, félagslegum, sálfræðilegum og lagalegum. Ráðstefnunni var streymt á netinu og gerð góð skil í fjölmiðlum, auk þess sem bekkurinn var þétt setinn í HR. Það voru lagadeild og sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík sem stóðu að ráðstefnunni í samstarfi við Rannsóknamiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri, lögreglustjórann í Vestmannaeyjum, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og Aflið - Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.
Þuríður Ragna Jóhannesdóttir (til vinstri) sagði frá tilfinningum sem hún upplifði í kjölfar þess að hafa verið nauðgað þegar hún var 16 ára gömul. Svala Ísfeld Ólafsdóttir (til hægri) hélt tvö erindi á ráðstefnunni.
Fyrst á mælendaskrá var Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra. Hún sagðist vona að þolendur veigruðu sér ekki við að stíga fram og kæra nauðgun og að leggja þyrfti kapp á að aðstoða þá í réttarvörslukerfinu. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, dósent, og Rannveig S. Sigurvinsdóttir, nýdoktor við sálfræðisvið HR, fjölluðu um mikilvægi frásagnar fórnarlamba. Það að segja frá geti komið í veg fyrir alvarlegar langtímaafleiðingar. Hindranirnar væru meðal annars hræðsla við neikvæð viðbrögð annarra í samfélaginu, að vera ekki trúað og að vera hafnað af samfélaginu. Hvatar séu aftur á móti fjölmiðlaumfjöllun, fyrirmyndir og byltingar eins og #metoo.
Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, greindi frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á dómum hæstaréttar þar sem þolandinn er barn, eða undir 18 ára aldri. Dómarnir eru 32 frá upphafi, frá árunum 1920 – 2015. Svala skoðaði hvað hafði hindrað þolendur í að kæra. Í máli hennar kom fram að mjög algengt var að stúlkurnar ásökuðu sjálfar sig fyrir glæpinn og fundu til mikillar skammar.
Sigrún Sigurðardóttir, lektor og formaður Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi við HA, fjallaði um kynferðisbrot gegn drengjum. Það sem hindrar þá í að segja frá er að þeir hafa oft verið kúgaðir, til dæmis með því að vera látnir fá áfengi eða símar af gerendum. Þeim finnst erfitt að segja frá og játa þá um leið neyslu undir lögaldri. Það sem aðskilur drengi sem fórnarlömb kynferðisofbeldis frá stúlkum er að þeir glíma í mörgum tilfellum við efasemdir um eigin kynhneigð og samþykkta karlmennskuímynd. Sigrún sagði afleiðingarnar fyrir þennan hóp vera margvíslegar. Í rannsókn meðal fanga á Íslandi sögðu t.d. 50% þeirra frá kynferðislegu ofbeldi. Hún sagði að það gæti verið góð hugmynd að hafa ofbeldisfræðslu í skólum landsins, rétt eins og umferðarfræðslu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði frá því sem embættið hefur gert á síðustu misserum til að efla kynferðisbrotadeild. Rannsóknarlögreglumönnum hefur verið fjölgað, málategundum fækkað og kynferðisbrot verið gerð að yfirlýstum áherslumálaflokki og ný meðferarúrræði verið reynd, eins og Bjarkarhlíð. Sigríður Björk sagði afar mikilvægt að brúa þá gjá sem er milli neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb og lögreglu og fá fleiri til að kæra. Frásagnir og kærur gerðu lögreglu enn auðveldara fyrir að vinna ötullega að málaflokkinum. Svarið gæti verið aukið þverfaglegt samstarf.
Einnig héldu erindi á ráðstefnunni Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur sálfræðiþjónustu Landspítala og dósent við læknadeild HÍ, Jón H.B. Snorrason saksóknari við embætti ríkissaksóknara, Helga Vala Helgadóttir lögmaður og alþingismaður, Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, Sigríður Hjaltested, héraðsdómari.
Einnig sagði fórnarlamb nauðgunar frá sinni reynslu og í lok ráðstefnunnar voru umræður. Ráðstefnustjóri var Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómari við Hæstarétt Íslands.