Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

MITx meistaranámskeið (micromasters) metin til eininga í meistaranámi við HR

20.6.2018

Nemendur í meistaranámi við Háskólann í Reykjavík geta nú tekið námskeið á meistarastigi í fjarnámi í MITx og fengið þau metin til eininga við HR. Öll námskeið eru kennd af sérfræðingum MIT og eru sambærileg við námskeið sem kennd eru í staðarnámi við MIT tækniháskólann í Boston. 

Tvær námsleiðir eru í boði. Annars vegar er um að ræða nýja námsleið MITx á sviði gagnagreiningar (e. Statistics and Data Science), sem samanstendur af fjórum námskeiðum. Hins vegar er um að ræða námsleið á sviði stjórnunar aðfangakeðja (e. Supply Chain Management) sem samanstendur af fimm sjálfstæðum námskeiðum. Námskeiðin eru öllum opin og ekki er gerð krafa um formlega undirbúningsmenntun.

Tölvunarfræði, viðskiptafræði og upplýsingastjórnun

Námskeiðin henta fólki í atvinnulífinu sem vill bæta við sig hagnýtri þekkingu og eiga um leið möguleika á að nýta námskeiðin sem hluta af meistaranámi við HR, MIT, eða aðra háskóla sem bjóða upp á  þessar námsleiðir. Nemendur sem eru að hefja, eða eru í meistaranámi í tölvunarfræði, viðskiptafræði eða upplýsingastjórnun HR, geta lokið námskeiðunum á netinu og fengið þau metin sem hluta af sínu námi. Fyrsta námskeiðið á sviði stjórnun aðfangakeðja hefst 27. júní næstkomandi og það fyrsta á sviði gagnagreiningar 3. september.

Mikilvæg sérfræðiþekking

Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR segir: „Við leggjum mikla áherslu á stöðuga framþróun í öllu námi, bæði í innihaldi og aðferðafræði, til að tryggja samkeppnisforskot okkar nemenda. Miklar og örar breytingar á sviðum tækni og viðskipta krefjast nýrra námsleiða til að veita nauðsynlega þekkingu og færni. Við erum því sérstaklega ánægð með geta boðið upp á þessar námsleiðir frá MITx. Eftirspurn eftir sérfræðingum í greiningu gagna fer ört vaxandi á öllum sviðum samfélagsins. Góð stjórnun aðfangakeðja skiptir fyrirtæki einnig gríðarlegu máli, ekki síst hér á Íslandi vegna inn- og útflutnings.“

Nánari upplýsingar um námsleiðirnar og einstök námskeið er að finna hér: