Fréttir eftir árum


Fréttir

MR vann Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna

11.3.2021

Lið frá Menntaskólanum í Reykjavík vann Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna, sem haldin er á vegum viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, í ár. Í keppninni reyna lið framhaldsskólanema með sér í að stjórna fyrirtæki með sem bestum árangri. Í ár tóku hvorki meira né minna en 22 lið þátt skipuð 80 framhaldsskólanemum víðs vegar af landinu. Þetta var metþátttaka.

Keppnin fór fram á Zoom en verkefni keppenda var að reka sína eigin súkkulaðiverksmiðju.

Keppnin er byggð á Edumundo-herminum sem er vel þekktur. Framhaldsskólanemarnir þurftu að framleiða fjórar súkkulaðitegundir og mikil samkeppni ríkir á súkkulaðimarkaðnum. Þau þurftu því að gera markaðskannanir, skoða keppinauta, gera rekstraráætlanir, setja niður stefnu og taka margs konar ákvarðanir.

Sigurliðið frá MR situr í tröppunum í SólinniSigurliðið í ár frá Menntaskólanum í Reykjavík. 

MR, Versló og VMA í þremur efstu sætunum

Vinningshafar í ár komu úr Menntaskólanum í Reykjavík, liðið hét SEMJa og var skipað þeim Elmari Atla Arnarssyni, Stefáni Þórarni Hermannssyni, Sigurþóri Magga Snorrasyni og Jóni Hákoni Garðarssyni.

Í öðru sæti hafnaði lið Verzlunarskóla Íslands sem hét P.B.W.C. Í því voru Mateusz Jakubek, Bartosz Wiktorowicz og Valdimar Freyr Freysson.

Verkmenntaskólinn á Akureyri vermdi þriðja sætið. Lið þeirra, Framsýn, var skipað Þorra Mar Þórissyni, Alfreð Aðils Sigurðarsyni og Amos Esra Theódórssyni.

Af hverju að keppa í stjórnun?

Markmiðið með Stjórnunarkeppni framhaldsskólanna er að vekja áhuga ungs fólks á góðri og ábyrgri stjórnun og kynna fyrir þeim þetta umfangsmikla og mikilvæga svið í atvinnulífinu. Stjórnun tengist jú allri starfsemi og mikilvægur hluti hennar er að taka ákvarðanir, bæði um atriði í starfseminni frá degi til dags og stærri ákvarðanir sem hafa áhrif á samfélagið allt til frambúðar. Háskólinn í Reykjavík hefur um árabil lagt mikla áherslu á að kenna ábyrga og vandaða stjórnun, meðal annars vettvangi PRME-samstarfsins um menntun ábyrgra stjórnenda

Eftirtaldir aðilar styrktu keppnina með verðlaunum:

  • Viðskiptaráð Íslands
  • Reykjavík Escape
  • Flyover Iceland
  • Blackbox Pizza
  • Lemon
  • Serrano