Fréttir eftir árum


Fréttir

Námið hefur styrkt mig sem stjórnanda

Opni háskólinn í HR-fjármál og rekstur fyrirtækja

11.8.2022

„Ég var að leita að námi sem myndi styrkja mig sem stjórnanda. Líkt og margir stjórnendur má segja að ég hafi endað í stjórnunarstarfi þrátt fyrir að hafa litla menntun í stjórnun og fjármálum. Ég valdi því námið Fjármál og rekstur fyrirtækja til að auka skilning minn á því sviði sem reyndist mjög áhugavert. Kennararnir voru fróðir um efnið, höfðu brennandi áhuga á því og tengdu námsefnið iðulega dæmum úr atvinnulífinu þannig að námið var mjög hagnýtt sem hentaði mér vel. Það hefur til að mynda nýst beint í mínu starfi að læra áætlanagerð fjármála er varðar ársreikningagerð fyrirtækja auk þess sem ég öðlaðist dýpri, almenna þekkingu á rekstri og fjármálum. Þá sátum við fyrirlestur helgaðan fjármögnun og fjárfestingum sem ég tel að muni nýtast mér vel,“ segir Hjörtur Sigurðsson.289528841_8013749548636867_1792840927920707789_n

Hjörtur starfar sem framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu og hefur gegnt því starfi frá því í apríl 2020. Hann flutti til Íslands frá Kaupmannahöfn árið 2018 og starfaði þá sem aðstoðar framkvæmdastjóri VSB. Hann bjó í átta ár í Kaupmannahöfn og starfaði þar fyrir verktakafyrirtæki þar sem hann vann við stafræna umbreytingu og hagnýtingu tækni í framkvæmdum. Hann er verkfræðingur að mennt, lauk B.Sc. prófi í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og M.Sc. prófi frá Tækniháskóla Danmerkur, DTU árið 2010.
Fjármál og rekstur fyrirtækja er námslína fyrir alla þá sem vilja dýpka þekkingu sína og auka færni á sviði reksturs og fjármála. Meðal þátta sem fjallað er um er lestur ársreikninga og mat fjármögnunarleiða og öðlast nemendur þekkingu sem nýtist í öllum greinum atvinnulífsins.
Skráning er hafin