Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemandi í HR í vinningsliði á nýsköpunarhátíð LS Retail

22.10.2015

Meira en hundrað manns tóku þátt í hugarflugi og verkefnum um smásöluverslun framtíðarinnar á fyrstu nýsköpunarhátíð LS Retail sem haldin var síðustu helgi. Allir starfsmenn LS Retail hér á landi, auk nemenda frá Háskólanum í Reykjavík, tóku þátt í hátíðinni.

Fjöldi frumlegra hugmynda kom fram um notkun á upplýsingatækni til þess að gera verslun framtíðarinnar einfaldari og ánægjulegri. Meðal hugmynda voru leitarvél sem finnur uppáhaldsvörumerki notenda, app til að skipuleggja fríið á sem hagkvæmastan hátt, hugbúnaður til að gera dagleg innkaup skemmtilegri og verslunarferðir í sýndarveruleika. Á hátíðinni gafst þátttakendum enn fremur tækifæri til að kynnast nýjustu tækni í vélbúnaði frá Nýherja.

Sjá myndband frá keppninni

App sem velur föt 

Sigurhugmyndin var app sem notar líkamsskanna, upplýsingar frá notanda og tölvuskýjatækni til að aðstoða neytendur við að velja réttu fötin. Appið á að auðvelda notandanum að finna rétta stærð og snið og um leið nýtist það verslunum í birgðahaldi og ætti að draga úr vöruskilum. Sigurliðið skipuðu sex starfsmenn LS Retail og Sini Hannele Koskenseppä, nemi í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði við Háskólann í Reykjavík. Áfram verður unnið með allar þær hugmyndir sem komu fram á nýsköpunarhátíðinni í stefnumótun innan LS Retail, með það fyrir augum að nýta þær eða hluta þeirra til nýþróunar hjá fyrirtækinu.

Samstarf um rannsóknir 

Háskólinn í Reykjavík og LS Retail eiga með sér fjölþætt samstarf um rannsóknir og menntun á sviði upplýsingatækni og viðskipta. Samstarfið miðar að því að efla menntun sem felur í sér samþættingu upplýsingatækni og viðskiptafræði og að kynna fyrir nemendum HR nýtingu þessara fræðigreina við þróun hugbúnaðar fyrir smásölu, veitingahús og skyldan rekstur. Nemendum HR bauðst að vinna með starfsmönnum LS Retail í hugmyndavinnu á nýsköpunarhátíðinni, auk þess sem sérfræðingar háskólans voru starfsmönnum til halds og trausts í hugmyndavinnunni. 

Dómnefnd keppninnar skipuðu Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík; Magnús Norðdahl forstjóri LS Retail og Salóme Guðmundsdóttir, forstjóri Klak-Innovit.

Innovation Fest