Nemar við HR hanna nýjan þjóðarleikvang
Víkingaskip eða Herðubreið gætu orðið fyrirmyndir að nýjum þjóðarleikvangi Íslendinga, nái hugmyndir nemenda Háskólans í Reykjavík fram að ganga. Nemendur á fyrsta ári við tækni- og verkfræðideild HR fara nú hamförum.
Á svokölluðum Hamfaradögum er regluleg kennsla brotin upp og tilvonandi tæknifræðingar, verkfræðingar og íþróttafræðingar einbeita sér að hugmyndavinnu og hugarflugi í hópavinnu. Í stað fyrirlestra vinna þau að verkefni sem í ár var að koma með hugmynd að nýjum þjóðarleikvangi Íslendinga.
Afrakstur hugmyndavinnunnar var kynntur í HR í dag með líkönum, myndböndum og veggspjöldum. Þrjú verkefni fengu sérstaka viðurkenningu dómnefndar fyrir notagildi, frumleika og framsetningu:
- Víkingaskip í Geldinganesi er sjálfbær bygging sem framleiðir rafmagn með sólarsellum á þaki og vindmyllum á sitthvorri hlið, sem nýtast sem loftræstikerfi. Byggingin er einnig hugsuð sem fjöldahjálparstöð fyrir höfuðborgarsvæðið sem gæti nýst fyrir 30.000 manns í 7 daga.
- Eyjan er fjölnota hús með færanlegum íþróttavelli sem er byggt neðanjarðar, úti í sjó, með glerþaki.
- Fossvogsundrið er byggt í Fossvoginum og tengir saman Reykjavík og Kópavog. Undir byggingunni eru sjávarfallahverflar sem sjá henni fyrir raforku og sætin eru einnig nýtt til rafmagnsframleiðslu.
Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag ehf., verkefnisstjóri KSÍ um nýjan þjóðarleikvang, var meðal þeirra sem kynntu sér hugmyndir nemenda í dag: „Það er virkilega gaman að skoða þessar flottu hugmyndir og ótrúlegt hversu miklu nemendurnir hafa fengið áorkað á aðeins tveimur dögum. Það eru margar ferskar hugmyndir hérna og við munum klárlega fylgjast með þessum verkefnum áfram.“
Tækni- og verkfræðinemar munu þróa þær hugmyndir sem komu fram á Hamfaradögum 2015 í þriggja vikna hönnunarnámskeiðum í lok haustannar.