Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendaverkefni til sýnis á Tæknidegi

14.5.2016

Tæknidagurinn er haldinn ár hvert í HR og var þetta árið haldinn í gær, 13. maí. Þar sýna nemendur í tæknifræði og verkfræði fjölbreytt verkefni sem þeir hafa unnið í verklegum námskeiðum yfir skólaárið og í þriggja vikna námskeiðum í lok annar. Jafnframt eru veitt verðlaun Tæknifræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tæknifræði. 

Dagskráin hófst með kynningu á Formula student verkefninu og afhjúpun á keppnisbíl sem nemendur stefna að að koma á Silverstone kappakstursbrautina í sumar. Gestir gátu svo heimsótt mismunandi stofur og kynnt sér nemendaverkefnin. Meðal verkefna þetta árið var lítil vatnsaflsvirkun með túrbínu, virkjun sjávaröldu, könnun á rafgæðum á Akranesi, búnaður til að fylgjast með rennsli í ám og lækjum sem sendir gögn með GSM, þraut í undankomuherbergi og ljósastýring með 3D-skynjun á staðsetningu handar.

Nemendur standa í kringum kappakstursbíl sem þeir hafa smíðað í náminu

Í lok dags veitti Tæknifræðingafélag Íslands viðurkenningar fyrir framúrskarandi lokaverkefni. Þau verkefni sem hlutu viðurkenningu í ár eru:  

  • Guðmundur Úlfar Gíslason, byggingartæknifræði. Veðurkápa á forsteyptum útveggjaeiningum með basalttrefjabendingu.
  • Stefán Ingi Björnsson, byggingartæknifræði. Steypt útveggjaklæðning með basaltbendingu.
  • Hjalti Freyr Guðmundsson, rafmagnstæknifræði. Búnaður til rafmagnsframleiðslu í bauju.
  • Sigurður Kristinn Jónsson, vél- og orkutæknifræði. Svínagas á Vatnsleysuströnd.


Tveir menn standa hlið við hlið og heilsast með handabandi

Jóhannes Benediktsson, formaður TFÍ og Guðmundur Úlfar Gíslason sem fékk viðurkenningu fyrir lokaverkefni í byggingartæknifræði.