Fréttir eftir árum


Fréttir

Samvinna háskólanema frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum

11.5.2016

Háskólinn í Reykjavík er í samstarfi við háskóla á hinum Norðurlöndunum, auk Eystrasaltslandanna, um námskeið í viðskiptafræði sem heitir Business Strategies for Sustainable Development. Markmið þess er að kynna norrænt viðhorf til sjálfbærrar þróunar og í leiðinni gefa nemendum færi á að vinna í alþjóðlegu umhverfi að raunverkefnum. Verkefnið er styrkt af NordPlus-áætluninni og einungis þrír til fjórir nemendur eru valdir í hvert skipti.

Nemendahópur HR stóð sig vel

Að þessu sinni fór lokaáfangi námskeiðsins fram í Riga, Lettlandi, í lok apríl. Sverrir Arngrímsson er lektor við viðskiptadeild og umsjónarmaður námskeiðsins fyrir hönd HR: „Nemendurnir hafa unnið vel í allt vor og samstarfið almennt gengið mjög vel. Aðeins heimamenn skoruðu hærra í veginni meðaltalseinkunn hópanna átta þannig að HR getur aldeilis verið stoltur af sínu fólki.“ Sverrir segir námskeiðið gefa nemendum tækifæri til að læra og upplifa frá fyrstu hendi hvernig það er að vinna með nemendum í öðrum löndum en nemendum er blandað saman þannig að aldrei eru tveir frá sama landi í þeim hópum. Verkefnin eru svo unnin fyrir fyrirtæki eða stofnanir í gestgjafalandinu. 

Háskólanemarnir sem tóku þátt í ár, frá Íslandi, hinum Norðurlöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, að loknum síðustu kynningum í námskeiðinu. Einhverja vantar á myndina en þátttakendur voru alls 33 nemendur og átta kennarar. 

Raunhæft verkefni í hverju landi

Á námskeiðinu fjalla nemendurnir um viðfangsefni á sviði sjálfbærni og frumkvöðlastarfsemi fyrirtækja, einkum nýsköpunar. „Nemendur í heimalandinu vinna skýrslu áður en út er komið um stöðu mála í heimalandi sínu og kynna niðurstöður sínar og bera saman við hin löndin þegar út er komið. Þá þreyta þeir einnig próf úr völdum greinum eða bókum um viðfangsefnið. Þá er unnið og kynntar niðurstöður úr raunhæfu verkefni sem nemendur vinna á staðnum í hópum ásamt nemendum frá hinum löndunum. 

„Þetta var í þriðja og síðasta skipti sem þessi kúrs var haldinn,“ segir Sverrir. „Nú í maí fáum við svo svar við umsókn okkar um framhaldið en sótt var um endurnýjun til að minnsta kosti næstu þriggja voranna. Ég vona svo sannarlega að þetta gangi eftir enda verðmætt fyrir nemendur okkar að eiga kost á þessu námskeiði.“  

Skólarnir eru auk HR: 

  • ISM University of Management and Economics, Litháen
  • Mälardalen University, Svíþjóð 
  • Aarhus University Herning, Danmörku
  • Lahti University of Applied Sciences, Finnlandi
  • Tallinn University of Technology, Eistlandi
  • University College of Southeast Norway, Noregi
  • Stockholm School of Economics Riga, Lettlandi