Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur á fyrsta ári takast á við loftslagsbreytingar

14.12.2018

Fyrsta árs nemar í tæknifræði og verkfræði fengu það verkefni nýlega að útfæra ýmis atriði í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Útfærslurnar þróuðu þau í hópum á þremur vikum, í námskeiði sem heitir Inngangur að tæknifræði og Inngangur að verkfræði.

Í dag, föstudag, sýndu nemendahóparnir lausnir sínar á veggspjöldum í Sólinni og útskýrðu útfærslur sínar. Meðal viðfangsefna hópanna voru rafvæðing hafna og fiskimjölsverksmiðja, uppbygging innviða fyrir reiðhjól og rafmagnshjól, aukin útbreiðsla græns bókhalds, minni matarsóun og nýting á úrgangi búfjár til metanframleiðslu. Þeir nemendur sem rætt var við voru bersýnilega búnir að kynna sér staðreyndir málsins vel. Þau minntust einnig mörg á að þau hefðu sett sér markmið persónulega varðandi aukna umhverfisvitund í daglegu lífi, eftir að hafa tekið þátt í námskeiðinu. 

Myndin sýnir plakat um endurheimt votlendis

Búa nemendur undir óþekkt vandamál

Haraldur Auðunsson og Hlynur Stefánsson, dósentar við tækni- og verkfræðideild, eru umsjónarmenn námskeiðsins ásamt Aldísi Ingimarsdóttur og Joe Foley sem einnig eru kennarar við sömu deild. Haraldur segir tilgang námskeiðsins vera að undirbúa nemendurna fyrir áskoranir sem þeir mæta í framtíðinni. „Við gerum þær kröfur til þeirra að þeir finni lausnir við flóknum vandamálum tengdum umhverfismálum en líka því sem er óþekkt í dag, það er, hvers konar vandamálum sem eiga eftir að koma upp í heiminum,“ segir hann.

Hlynur segir nemendurna vera til í slaginn. „Þetta eru nemendur á fyrsta ári í tæknifræði og verkfræði sem þýðir að þau hafa einungis verið í náminu í tæpa fjóra mánuði. Þau hafa lokið fjórum bóklegum námskeiðum í stærðfræði, efnafræði, forritun og eðlisfræði. Núna eru þau sett inn í allt annað umhverfi sem er opið, raunverulegt og afar krefjandi og engar skýrar leiðbeiningar um lausn. Þau þurfa sjálf að skilgreina aðferðina við að leysa vandamálin. En þau eru alveg tilbúin í það og það er virkilega gaman að sjá hversu mikinn áhuga þau hafa á því að leysa þetta gríðarstóra vandamál og hella sér út í það að finna lausnir.“

Hópur nemenda stendur fyrir framan plakat í SólinniEinn hópurinn setti fram tillögu að rafvæðingu sjö íslenskra hafna.

Að hugsa út fyrir boxið

„Þetta er mikil áskorun fyrir þau, að brjótast út úr fræðunum og vera meira skapandi. Fyrsta svona námskeiðið var haldið fyrir fjórum árum og við höfum verið með mismunandi viðfangsefni en það hefur alltaf verið listamaður sem heldur fyrirlestur fyrir nemendahópinn því sú nálgun sem þeir nota við lausn verkefna er gríðarlega áhugaverð og mikilvæg fyrir þessa tæknimiðuðu nemendur,“ segir Haraldur. Í ár var það listakonan Sara Riel sem lýsti hugmyndavinnu sinni og lausnum í útfærslu þeirra fyrir nemendahópnum. Unnur Brá Konráðsdóttir, starfsmaður ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum kom jafnframt til að fjalla um aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem er í 34 liðum.

Nemendurnir voru settir saman í hópa á tilviljanakenndan hátt en með því móti verður vinnan þverfagleg og nemendurnir kynnast vel hvert öðru. Þau lærðu og æfðu sig í tölvustuddri hönnun og gerð teikninga, hönnuðu hluti og lausnir og sátu fyrirlestra um siðfræði og hvaða gildi þau vilja hafa í huga við ákvörðunartöku, hópvinnuaðferðir, verkefnastjórnun, hugarflugsaðferðir, stuttmyndagerð og mismunandi aðferðir við að kynna verkefnin sín. Í lok námskeiðsins þurfti hver hópur að skila skýrslu ásamt stuttmynd auk þess að setja sínar lausnir fram á plakötunum sem voru til sýnis í Sólinni.

Þeim Hlyni og Haraldi finnst áhugi nemenda og vitundarvakning þeirra á meðal vera tilefni til bjartsýni. „Þessi stóri hópur hefur fengið mikla hvatningu til að leysa gríðarstórt vandamál sem þau hafa fengið í fangið og bera í raun ekki ábyrgð á, heldur eldri kynslóðir. Þau tileinka sér ýmsar aðferðir við að finna lausnir við umfangsmiklum vandamálum, en það er  mjög mikilvægt, enda nemendur sem munu fara út í atvinnulífið sem sérfræðingar og móta framtíð okkar.“

Tveir menn standa hlið við hlið og brosa í myndavélinaHlynur Stefánsson og Haraldur Auðunsson stýrðu námskeiðinu.