Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur bregðast við eldgosi á Hengilssvæðinu

Hellisheiðin logar!

13.9.2018

Neyðarástand er í borginni, götur fylltust á örskömmum tíma í morgun og einstaklingar að missa stjórn á sér vegna álagsins. Verulegar truflanir eru á raforku, hús í tilteknum hverfum eru að kólna, og farið er að örla á örvæntingu meðal borgarbúa. Kjaftæðið sem kemur frá hinum og þessum útvarps- og samfélagsmiðlum ruglar almenning, og útsendingar eru slitróttar og furðulegar. Símakerfið er að hruni komið og tilviljun ræður hvort samband náist auk þess sem netið er hægvirt.

Svona hljómar ófögur lýsing á ástandi sem fyrsta árs nemendur tækni- og verkfræðideildar þurfa að reyna að leysa. Eldgos er hafið í Henglinum, í um 20 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík. Sem betur fer eru aðstæðurnar þó einungis fræðilegar.

Þessi óvenjulegi kúrs nefnist Hamfaradagar og gefur nemendum tækifæri til að kynnast sín á milli ásamt því að skilja mikilvægi teymisvinnu og formlegrar hugmyndavinnu. Viðfangsefni Hamfaradaga hafa áður verið að til dæmis halda Eurovision keppnina, útfæra neyðaráætlun vegna mannskæðs sjúkdóms sem krefst þess að landið sé í sóttkví, ásamt ýmsum raunverulegri vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir að þurfa að leysa. Hér fyrir neðan má lesa meira um það flókna úrlausnarefni sem nemendur standa frammi fyrir í ár en þetta eru tilkynningarnar sem nemendurnir fá frá „Fréttastofu tækni- og verkfræðideildar“.

HamfaradagarNemendur fylgjast spenntir með fréttum.

Frá fréttastofunni

Nemendur fylgdust með því í morgun, fimmtudag, þegar tilkynnt var um það að gos hefði hafist. Þau sáu frétt þess efnis hjá fréttastofu tækni- og verkfræðideildar, sem naut aðstoðar fréttastofu Stöðvar 2, ásamt viðtal við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins um ástandið. Eftir hádegi á morgun, föstudag, þurfa hóparnir að kynna lausnir sínar. Hér eru helstu fréttir sem nemendur hafa fengið:

Hellisheiðin logar!

Eldsumbrot hófust í nótt kl. 5:45 samkvæmt mælum Veðurstofunnar, og það hefur verið staðfest af þeim sem fóru um heiðina í nótt. Vísindamenn eru uggandi, þar sem eldgos úr megineldstöðvum, eins og Henglinum, eru gjarnan mjög öflug og óútreiknanleg. Jarðvísindamenn reyna að fylgjast með efnasamsetningu gasa sem koma upp í gosinu og hraða hraunsins af heiðinni í átt að borginni.

Umferðarteppur og innilokun

Íbúar í Reykjavík eru létt skelkaðir yfir því hversu nálægt byggð gosið er og velta fyrir sér hvert og hversu langt hraunið muni renna.  Umferðarteppur eru að myndast um alla borg. Fréttastofa tækni- og verkfræðideildar hafði samband við Bráðamóttöku Landspítalans, en þangað hafa nú þegar leitað nokkrir einstaklingar sem hafa þurft aðstoð vegna ótta við gosið og einhverjir eru að kvarta yfir ertingu í augum. Nú strax í morgun voru kallaðir út fleiri starfsmenn vegna álagsins.

Almannavarnir óska eftir áætlun

Almannavarnir óska eftir ráðgjöf frá ykkur nemendum. Hingað til hafa allar viðbragðsáætlanir vegna eldgosa snúist um Kötlu, Heklu og Öræfajökul, en engar áætlanir eru til hjá Almannavörnum fyrir gos svona nálægt Reykjavík. Óskað er eftir áætlun um hvernig best sé að haga málum í Reykjavík vegna gossins, viðhalda skipulagi og yfirvegun. Útbúa á raunhæfar áætlanir, spá í hvað getur gerst, hvað er mögulega hægt að gera og hvenær.

Reykjavík í ruglinu

Gosið er fjörugt og vísindamenn áætla að þrjár milljónir rúmmetra af kviku komi upp á klukkustund, og ekkert sem bendir til að lát verði á virkninni á næstunni. Hraunstraumurinn heldur áfram að stefna til suðurs og vestur frá sprungunni. Æsingur og pirringur eykst hjá Reykvíkingum vegna frétta um hraunstrauminn í átt að borginni, öskumisturs, og jafnvel ólykt. Rígur virðist vera milli opinberra aðila um hver eigi að stjórna aðgerðum, og engar viðbragðsáætlanir finnast. Fréttir eru afskaplega óljósar.

Almannavarnir óska eftir verkaskiptingu - og áætlun klukkan 15

Það er aðkallandi að setja saman sértækari aðgerðaáætlanir vegna hraða atburða. Til að verkið gangi sem best hafa Almannavarnir ákveðið að skipta með ykkur verkum. Raunhæfar áætlanir eiga að vera tilbúnar klukkan 15 í dag og er miðað við að þær komi strax til framkvæmda. Í öllum áætlunum þarf að koma fram mati á skynsemi þeirra, hvað þarf og hvað er hægt að gera. Þetta er síðasta tilkynningin frá almannavörnum.

Aska, rafmagsleysi og allt stopp!

Gosinu fylgir fín aska eða ryk sem smeygir sér alls staðar. Eins og svo oft þá er hæg austanátt. Eitthvað er um íbúar í Reykjavík og nágrenni finni fyrir öndunarörðugleikum. Verulegar truflanir eru á raforku, hús í tilteknum hverfum eru að kólna, og farið er að örla á örvæntingu meðal borgarbúa. Símakerfið er að hruni komið og tilviljun ræður hvort samband náist auk þess sem netið er hægvirt.