Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur fá tækifæri til að þróa bankakerfi framtíðarinnar

28.5.2018

„Gervigreind, stórtæk gagnavinnsla, Blockchain og önnur upplýsingatækni munu á næstu árum hafa gríðarleg áhrif á bankastarfsemi, líkt og fjölmarga aðra geira. Við erum mjög ánægð með þennan samning við Íslandsbanka sem gerir okkur enn betur í stakk búin til að taka virkan þátt í í þessum breytingum með því að þróa tækni og færni nemenda á sviði fjártækni.“

Þetta sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, við undirskrift samstarfssamnings við Íslandsbanka sem skrifað var undir fyrir stuttu. Nemendur og sérfræðingar Háskólans í Reykjavík munu í samstarfi við starfsfólk Íslandsbanka vinna að rannsóknum og þróun á nýjum hugbúnaði, þjónustu og fjölbreyttum lausnum fyrir bankakerfi framtíðarinnar, samkvæmt nýjum samstarfssamningi. Samkvæmt honum mun fjárframlag Íslandsbanka, tólf milljónir króna á ári, m.a. nýtast til að fjármagna fjölbreytt meistaraverkefni nemenda á sviði opinna bankakerfa, fjártækni og skyldra greina.

Markmiðið með samningnum er að nýta tækifærin í þessum breytingum til að Ísland verði í fararbroddi fyrir opið bankakerfi og opna um leið möguleika fyrir fjármálaþjónustu erlendis.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir samninginn við HR opna fyrir tækifæri til þróunar á nýjum lausnum sem muni nýtast viðskiptavinum bankans og að hann ætli að vera fyrsti íslenski bankinn sem fari í samstarf við fjártæknifyrirtæki.

Hr-islandsbanki

Frá undirskrift samningsins. Frá vinstri: Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri tengsla hjá HR, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR og Gísli Hjálmtýsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR.