Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Nemendur geti skapað störf framtíðarinnar

25.4.2017

Frá og með næsta hausti býðst öllum nemendum í meistaranámi við Háskólann í Reykjavík að leggja sérstaka áherslu á nýsköpunar- og frumkvöðlafræði í námi sínu. Komið hefur verið á fót nýrri áherslulínu í nýsköpun og frumkvöðlafræðum sem er ætlað að veita nemendum færni til að skapa ný tækifæri í síbreytilegu viðskiptaumhverfi nútímans.

Lögð verður áhersla á umhverfi nýsköpunar, skapandi nálgun viðfangsefna, vöruþróun, áætlanagerð, stjórnun og fjármál. Meistaranemar við allar deildir háskólans sem ljúka 30 einingum (ECTS) á þessu sviði eiga þess kost að útskrifast með prófgráðu þar sem fram komi að þeir hafi lokið meistaranámi á sinni námsbraut með áherslu á frumkvöðla- og nýsköpunarfræði.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, segir um nýju áherslulínuna: „Störf framtíðarinnar eru að stórum hluta óþekkt. Það er því ekki nóg fyrir útskrifaða nemendur að vera undirbúinn til að takast á við skilgreind og afmörkuð verkefni að loknu háskólanámi. Þeir þurfa einnig að geta haft frumkvæði að verkefnum, mótað þau og framkvæmt í samstarfi við aðra. Þess vegna erum við mjög stolt af því að geta nú boðið öllum nemendum okkar í meistaranámi, óháð því hvaða nám þeir stunda, upp á áherslulínu í nýsköpun og frumkvöðlafræði.“

Meðal markmiða með nýju námslínunni er að:

  • Nemendur tileinki sér víðsýni og frumleika í hugsun og athöfnum
  • Nemendur geti þróað nýjar hugmyndir til nýsköpunar og möguleika þeirra.
  • Nemendur geti skipulagt og leitt nýsköpunar- og frumkvöðlastarf, bæði innan og utan skipulagsheilda, með og án hagnaðarsjónarmiða.

Opið er fyrir umsóknir í meistaranám við Háskólann í Reykjavík til 30. apríl.

Yfirlit yfir meistaranám við HR

Lesa vefsíðu áherslulínunnar