Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur HR fái tækifæri til að kynnast Asíu betur

8.1.2016

Nemendur HR fái tækifæri til að kynnast Asíu betur

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, skrifar undir samstarfssamning við National University í Hanoi í Vietnam

Rektor Háskólans í Reykjavík, Ari Kristinn Jónsson, var nýlega hluti sendinefndar í heimsókn forseta Íslands til Víetnam og Suður-Kóreu. Í ferðinni fékk rektor tækifæri til að hitta fulltrúa stjórnvalda, háskóla og atvinnulífs í löndunum tveimur.

„Við heimsóttum tvo háskóla, National University í Hanoi í Víetnam og Kookmin University í Seúl í Suður-Kóreu. Tilgangur þessa heimsókna var að koma á samstarfi milli HR og þessara háskóla, meðal annars til að auka tækifæri nemenda HR til að fara í skiptinám í þessum löndum, en líka til að vekja athygli á þeim tækifærum sem HR býður alþjóðlegum nemendum.“ Samstarfssamningarnir voru undirritaðir við hátíðlegar athafnir að viðstöddum þjóðarleiðtogum. „Við héldum líka fundi með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífs í Saigon þar sem gott tækifæri gafst til að kynna hvað HR hefur upp á að bjóða.“

Orku- og umhverfismál í brennidepli

Ari Kristinn segir sérstaklega horft til samstarfs á sviðum tækni og endurnýjanlegrar orku, enda er HR stærsti tækniháskóli Íslands og rekur öflugt alþjóðlegt meistaranám á sviði endurnýjanlegrar orku í gegnum Íslenska orkuháskólans (Iceland School of Energy). 

„Það má segja að rauði þráðurinn í ferðinni hafi verið orku- og umhverfismál, enda er það öllum til góðs að kunnátta Íslendinga á endurnýjanlegri orku fari sem víðast. Heimsbyggðin stendur frammi fyrir gríðarstóru verkefni við að minnka hin neikvæðu áhrif sem fylgja brennslu jarðefnaeldsneytis. 

Á sama tíma er orkuþörf stöðugt að aukast, sérstaklega í löndum eins og Víetnam þar sem efnahagurinn vex hratt. Ef engir aðrir valkostir eru til staðar, þá eru kolaorkuver líklegasta leiðin til að mæta aukinni orkuþörf, þrátt fyrir neikvæð áhrif þeirra. En í Víetnam eru mikil tækifæri til nýtingu jarðhita og um leið til samstarfs í menntun sem verður öllum til hagsbóta.“ Í dag stundar stór hópur erlendra nemenda meistaranám í orkuverkfræði og orkuvúsindum í Íslenska orkuháskólanum og má búast við því að nemendum frá Asíu fjölgi í kjölfar þessarar ferðar og aukins samstarfs.

Miðlun þekkingar frá Íslandi til umheimsins

Í Víetnam var líka horft til mögulegs samstarfs á sviðum sjávarútvegs og matvælavinnslu, enda Víetnam mikil fiskveiði- og fiskræktarþjóð. Ísland hefur dýrmætri þekkingu að deila með heiminum, bæði í sjáfbærri nýtingu auðlindanna og hámörkun verðmætasköpunar. Háskólinn í Reykjavík hefur nýlega komið á fót alþjóðlegu námi fyrir stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi, í samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Matís.

„Háskólinn í Reykjavík er alþjóðlegur háskóli,“ segir Ari að lokum. „Samstarf við umheiminn er því mikilvægur þáttur í okkar starfi, en með því fæst bæði tækifæri til að miðla þeirri dýrmætu þekkingu sem er til staðar í HR og á Íslandi, sem og að efla nám og rannsóknir í HR. Asía er líka mjög svo áhugavert svæði til framtíðar og því mikilvægt að gefa nemendum okkar góð tækifæri til að kynnast svæðinu.“