Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur HR forrita tímamótaleik fyrir EVE Online

18.4.2017

Nemendur við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík taka þessa dagana þátt í rannsóknarverkefni sem vakið hefur verðskuldaða athygli undanfarið. Verkefnið heitir Project Discovery og er unnið í samstarfi við CCP tölvuleikjaframleiðandann sem meðal annars framleiðir hinn gríðarlega vinsæla leik EVE Online. Með Project Discovery fá spilarar EVE Online tækifæri til að aðstoða vísindamenn við að finna nýjar plánetur og á sama tíma vinna til verðlauna í leiknum.

Nemendurnir tveir, Sverrir Magnússon og Ívar Örn Ragnarsson, forrita leikinn Project Discovery inni í EVE Online. Verkefnið er unnið af CCP Games ásamt Sverri, Ívari og tölvunarfræðideild HR í samvinnu við Háskólann I Genf. Nýlega var Dr. Michael Mayor í viðtali við Newsweek í Bandaríkjunum vegna Project Discovery, en hann er prófessor við Háskólann í Genf og stýrir verkefninu. Mayor uppgötvaði sjálfur fyrstu nýju reikistjörnuna sem er á braut um aðra stjörnu en Sólina, nokkuð sem er kallað exoplanet.

Screen-Shot-2017-04-18-at-10.47.45Ívar Örn Ragnarsson í viðtali hjá fréttastofu Stöðvar 2.

Þeir Hjalti Leifsson og Jóhann Örn Bjarkason forrituðu leik inn í EVE Online árið 2015 þar sem spilarar hjálpuðu  vísindamönnum að greina prótein í mannslíkamanum og þannig finna orsakir sjúkdóma, en þetta var hluti stórs rannsóknarverkefnis sem heitir Human Protein Atlas.

CCP Games og Háskólinn í Reykjavík hafa starfað saman í nokkur ár, meðal annars geta nemendur HR sótt um starfsnám hjá fyrirtækinu. Tölvuleikjaframleiðandinn styrkir jafnframt eina rannsóknarstöðu við tölvunarfræðideild HR og stendur að rannsóknum á gervigreind og leikjafræði með Gervigreindarsetri HR, CADIA.

Skjáskot úr leiknum EVE Online sýnir geimskip