Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur HR kynntu sér tækifæri til náms á erlendri grundu

1.9.2016

Erlendir nemendur við Háskólann í Reykjavík buðu upp á mat frá sínu heimalandi á Alþjóðadegi HR í Sólinni í dag. Á Alþjóðadegi gefst nemendum HR tækifæri til að kynnast erlendum nemum og fræðast um nám í þeirra heimalandi. 

Fulltrúar átta erlendra sendiráða voru jafnframt á staðnum svo og Fulbright-sjóðurinn, Samband Íslenskra námsmanna erlendis, Upplýsingastofa um nám erlendis, kínverska menningarstofnunin Konfúsíus, AIESEC og svo mætti lengi telja. Nokkrir af erlendu skiptinemunum höfðu sett saman hljómsveit og skemmtu gestum með líflegri tónlist. 

Metfjöldi erlendra nema stundar nú nám við Háskólann í Reykjavík. Nemendur sem koma erlendis frá eru í ár um 200 talsins en þetta er mesti fjöldi erlendra nemenda sem um getur í sögu háskólans.

Nemendur gæða sér á mat

Alþjóðadagur er haldinn í Háskólanum í Reykjavík á hverri önn. Það er skrifstofa alþjóðaskipta sem sér um skipulagningu viðburðarins. 

Myndir frá deginum má sjá á Facebook-síðu HR