Fréttir eftir árum


Forsíðufréttir

Nemendur HR lentu í 7. sæti alþjóðlegrar netöryggiskeppni

25.5.2023

Netöryggiskeppni


Liðið pwnagaukar sem skipað er nemendum Háskólans í Reykjavík lenti í 7. sæti í netöryggiskeppninni Hackday sem fór fram 12. maí í verkfræðiskólanum ESIEE í París. Meðlimir pwnagaukar eru þeir Axel Marinho Guðmundsson, Dagur Benjamínsson, Elvar Árni Bjarnason, Samúel Arnar Hafsteinsson og Kristinn Vikar Jónsson en þeir stunda allir BSc nám í tölvunarstærðfræði og tölvunarfræði í HR.

Hvers konar keppni var þetta og hvernig fór hún fram?

Keppnin var í svokölluðum „jeopardy“ stíl, sem þýðir að við fáum dæmi sem tengjast netöryggi t.d. vefsíður sem hafa einhverjar villur þannig að við fáum aðgang að „admin“ svæðinu, en við eigum bara að vera venjulegir notendur. Þar inni er fáni sem við náum svo í til að sanna að við höfum leyst dæmið. Keppnin byrjaði kl. 18:00 föstudaginn 12. maí og var í gangi í 24 klukkustundir og fengum við því lítinn sem engan svefn á meðan hún var í gangi, segir Samúel Arnar.


Netöryggiskeppni

Samúel segir liðsandann í liðinu pwnagaukar hafa verið frábæran.


Þekkja vel styrkleika hvors annars

Að sögn Samúels þekkjast þeir félagar vel enda hafa þeir tekið þátt í fjölmörgum sambærilegum keppnum áður.

Liðsandinn í liðinu var frábær, við höfum keppt nokkrum sinnum saman áður, t.d. á ECSC fyrir hönd Íslands og öðrum minni keppnum og þekkjum því styrkleika hvors annars vel.

Hvernig voru þrautirnar í keppninni og hvernig undirbjugguð þið ykkur fyrir þær?

Þrautirnar í keppninni voru skemmtilegar og í miðlungs kantinum varðandi erfiðleikastig. Við undirbjuggum okkur fyrir keppnina með því að taka þátt í svipuðum keppnum, nema í gegnum netið og er oft best til að læra með því að gera (e. learning by doing). Síðan til að komast í úrslit þurftum við fyrst að komast í gegnum undanúrslitin sem voru haldin á netinu, rúmum tveimur mánuðum fyrir lokakeppnina og hjálpuðu dæmin þar við undirbúning, þar sem sömu dæmahöfundar voru fyrir undanúrslit og lokakeppnina.


Reyna við stærstu netöryggiskeppni heims

Samúel segir þá félaga stefna á fleiri netöryggiskeppnir og sú næsta fer fram strax á föstudaginn í Danmörku auk þess sem þeir stefna á að taka þátt í Gagnaglímunni sem fer fram í HR dagana 3. og 4. júní næstkomandi.

Við stefnum á að taka þátt í fleiri svona keppnum og núna næstkomandi föstudag erum við (allir nema Axel) að fara til Danmerkur og munum þar keppa með hinum norðurlöndunum í liði sem heit NorseCode til að reyna að komast í lokakeppni DEF CON í Las Vegas, sem er stærsta netöryggiskeppni í heimi og telja liðin þar tugi manna. Ásamt því tökum við þátt í Gagnaglímunni, sem er lokakeppni til að komast í íslenska liðið fyrir Netöryggiskeppni Evrópu, ECSC (European Cyber Security Challenge), sem er stærsta keppnin í Evrópu.


Netöryggiskeppni

Keppnin stóð yfir í 24 klukkustundir og fengu því strákarnir lítinn sem engan svefn meðan hún var í gangi.


Stefnir út í geim

Skiptir netöryggi miklu máli í heiminum í dag?

Netöryggi skiptir gríðarlega miklu máli í dag, þar sem mest megnið af heiminum er að tölvuvæðast, en einungis örfáir sem hafa hæfnina til að tækla á vandamálum tölvuöryggis, t.d. til að verjast tölvuþrjótum sem brjótast inn í fyrirtæki eða heilbrigðisiðnaðinn.

Þú stundar grunnnám í tölvunarstærðfræði við HR, hvað finnst þér áhugaverðast við það fag?

Ég fór í það nám þar sem ég hef áhuga að læra hvernig tölvur virka og af hverju þær gera það sem þær gera. Ásamt því finnst mér gaman að leysa þrautir, sem er eitthvað sem tölvunarstærðfræðin býður mikið upp á.

Hvað stefnirðu á að gera að námi loknu?

Ég stefni í framhaldsnám, líklegast í flugvélaverkfræði (tengt geimnum) og þá sérstaklega að hanna tölvur og reiknirit fyrir geimskoðun, ásamt því að mögulega fara út í geim.


Netöryggiskeppni

pwnagaukar stefna á fleiri netöryggiskeppni og freista þess að komast í stærstu netöryggiskeppni heims,  DEF CON í Las Vegas.


/////

The team pwnagaukar, which consists of students from Reykjavik University, came in 7th place in the cyber security challenge Hackday, which took place on May 12th at the engineering school ESIEE in Paris. The members of pwnagaukar are Axel Marinho Guðmundsson, Dagur Benjamínsson, Elvar Árni Bjarnason, Samúel Arnar Hafsteinsson and Kristinn Vikar Jónsson, who all study a BSc in computer mathematics and computer science at RU.

What kind of challenge was it and how did it take place?

The competition was in a so-called "jeopardy" style, which means that we get problems related to cyber security e.g. websites that have some bugs and we get access to the "admin" area, but we‘re supposed to be just regular users. In there is a flag that we need to retrieve to prove that we have solved the problem. The competition started at 6 PM on Friday May 12th and ran for 24 hours, so we had little or no sleep while it was running, says Samúel Arnar.