Fréttir eftir árum


Fréttir

Munu þróa nýjar leiðir í afþreyingu og snjöll heimili í samstarfi við Símann

5.9.2017

Síminn og Háskólinn í Reykjavík hafa gert samstarfssamning sem gefur nemendum HR tækifæri til að þróa nýjustu þjónustu og tækni á sviðum sjónvarps, upplýsingatækni og fjarskiptaþjónustu í samstarfi við Símann.

Viðfangsefni þessa samstarfs eru fjölmörg en snerta meðal annars gervigreind, snjalltækni, snjöll heimili, nýjar leiðir í viðskiptum, afþreyingu og fjölmargt fleira. Samningurinn er til fimm ára og miðar enn fremur að því að kynna notkun upplýsingatækni í þróun lausna fyrir fjarskiptaþjónustu og skyldum rekstri fyrir nemendum háskólans og auka áhuga þeirra á störfum sem tengjast fjarskiptum og upplýsingatækni.

Síminn mun styrkja meistaraverkefni allt að sex nemenda á ári sem tengjast starfsemi Símans. Verkefnin verða unnin hjá Símanum og HR og munu nemendur hafa aðgang að sérfræðingum Símans og tæknilegum innviðum fyrirtækisins við verkefnin. Verkefnin verða valin af sameiginlegum faghópi úr tillögum frá nemendum, kennurum HR og starfsfólki Símans. Samstarfið nær einnig til starfsnáms, fræðslu og viðburða sem miða að því að efla þekkingu og áhuga á sviðum fjarskipta, afþreyingar og upplýsingatækni.

„Hagvöxtur næstu ára og áratuga mun í stórauknum mæli byggja á hugviti og þar skipa upplýsingatækni og fjarskipti stóran sess sem sjálfstæður iðnaður og sem stoð við aðra starfsemi. Það er því gríðarlega mikilvægt að efla menntun á þessu sviði og við erum mjög ánægð með þennan samstarfssamning sem veitir nemendum okkar tækifæri til að vinna að fjölbreyttum og áhugaverðum verkefnum með Símanum,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.

Orri Hauksson, forstjóri Símans segir: „Við hjá Símanum horfum til þess að hröð þróun og tæknibreytingar hafa stöðugt áhrif á vöruframboð okkar og framtíð, hvort sem litið er til innviða, upplýsingatækni eða afþreyingar. Skortur hefur hins vegar verið á tæknimenntuðu fólki hér á landi og viljum við gera okkar til þess að bæta úr því, enda Síminn spennandi vinnustaður þegar kemur að framþróun og nýsköpun. Við erum stolt af því að sameina kraftana með Háskólanum í Reykjavík og vonum að frjó hugsun háskólanemenda blandist reynslumiklli þekkingu innan Símans með góðum árangri fyrir samfélagið.“

Ari Kristinn Jónsson rektor og Orri Hauksson forstjóri Símans takast í hendur í HRAri Kristinn Jónsson, rektor HR, og Orri Hauksson, forstjóri Símans.