Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur HR sigursælir í Gullegginu 2019

29.10.2019

Nemendur Háskólans í Reykjavík létu til sín taka í frumkvöðlakeppni Icelandic Startups, Gullegginu, í ár. Lokahóf keppninnar var haldið í Sólinni í HR síðasta föstudag. Í ár bárust 135 hugmyndir auk þess sem 20 einstaklingar skráðu sig til leiks án hugmyndar og áttu þess kost að taka þátt í verkefnum annarra.

Keppnin veitir þátttakendum einstakt tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri, fá endurgjöf og gera úr þeim raunhæfar og markvissar áætlanir sem miða að árangursríkri stofnun fyrirtækja. Gulleggið hóf göngu sína árið 2008 og er mikilvægur stuðningur fyrir frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref. Nemendur Háskólans í Reykjavík fá stuðning við að láta hugmyndir verða að veruleika í námi og er áhersla á nýsköpun talsverð í kennslu bæði á grunn- og meistaranámsstigi.

Dufl

Hópur manna stendur með stórt skiltiHópurinn á bak við Dufl, sem var sigurliðið í ár, eru allir nemar í verkfræði við Háskólann í Reykjavík. Þeir hafa þróað bættan staðsetningarbúnað fyrir sjó og hlutu að launum 1.500.000 kr. peningaverðlaun frá Landsbankanum og sérverðlaun í flokkinum fyrir „vöru“. Fyrsta sætinu fylgir jafnframt ráðgjöf hjá Marel og Hugverkastofunni.

Statum

Hópur kvenna stendur með blóm og viðurkenningarskjölHópurinn á bak við Statum hannaði gagnvirkan dómsal í sýndarveruleika til að undirbúa þolendur kynferðisofbeldis undir það að fara fyrir dóm. Hópurinn hlaut verðlaun í flokki „stafrænna lausna“. Teymið hlaut að launum ráðgjöf hjá Origo og Advel lögmannsstofu. Það eru þær Hafdís Sæland, Edit Ómarsdóttir og Helga Margrét Ólafsdóttir sem vinna að hugmyndinni í samstarfi við sálfræðideild HR. Þær sjá fyrir sér að mögulegur notandi gæti verið samtökin Stígamót, ásamt fleirum. Þær Hafdís, Edit og Helga Margrét eru núverandi, og nýútskrifaðir, nemendur í tölvunarfræði við HR.

Minnka matarsóun og mæla vökva í líkamanum

GreenBytes

í flokki „grænna lausna“ var það hópurinn GreenBytes sem fékk viðurkenningu og 150.000 kr. að launum frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og ráðgjafatíma hjá KPMG. GreenBytes býður upp á hugbúnaðarlausn sem nýtir sölugögn með vélnámi til að minnka matarsóun og auka framlegð veitingastaða. Þess má geta að þær Renata Bade og Jillian Verbeugt, sem eiga heiðurinn af GreenBytes, koma báðar úr Íslenska orkuháskólanum í HR þar sem Jillian stundar nám en Renata útskrifaðist þaðan í vor. 

Tvær konur standa hlið við hlið með blómvendiÖrmælir

Mælir sem mælir snertilaust mjög lítið vökvamagn hlaut viðurkenningu í flokknum „heilsu“. Mælirinn nýtist í rannsóknum í heilbrigðisvísindum. Hópurinn á bak við örmælinn fékk að launum 300.000 kr. í peningaverðlaun frá Landsbankanum, ráðgjafatíma hjá Össuri og samtalsleit einkaleyfa frá Hugverkastofunni. Einn meðlima hópsins, Andri Björn Eiðsson, er nýútskrifaður úr vélaverkfræði frá HR.

Þrennt stendur með viðurkenningar

Myndir: Icelandic Startups