Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur HR tilnefndir til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

16.1.2017

Tvö verkefni nemenda Háskólans í Reykjavík hafa verið tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna síðasta sumar. 

Ung kona stendur í skólastofu með sýndarveruleikaglerauguFramkalla fælni

Verkefni þeirra Ara Þórðarsonar, Gunnars Húna Björnssonar og Harðar Más Hafsteinssonar snýr að framköllun fælniviðbragðs með sýndarveruleika. Það var unnið í Gervigreindarsetri Háskólans í Reykjavík í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og Nox Medical. Þeir Ari, Gunnar og Hörður þróuðu umhverfin og hugbúnaðinn sem er notaður í tilrauninni en með honum var hægt að framkalla viðbrögð við innilokunarkennd, köngulóafælni, vatnsfælni, hræðslu við oddhvassa hluti og lofthræðslu. Ari og Hörður eru meistaranemar í tölvunarfræði en Gunnar er í námi við sálfræðisvið HR.

Taugabrautir í þrívídd

Í verkefni sínu kortlagði Íris Dröfn Árnadóttir, meistaranemi í heilbrigðisverkfræði við tækni- og verkfræðideild HR, taugabrautir í heila til stuðnings við undirbúning heilaskurðaðgerða. Með því að kortleggja taugabrautir má bæta undirbúning skurðaðgerða og nýtist tæknin jafnframt til stuðnings í aðgerðunum sjálfum. Verkefnið vann Íris innan Heilbrigðistækniseturs HR sem er samstarf Landspítalans og Háskólans í Reykjavík og hefur verið frumkvöðull í notkun þrívíddarlíkana við undirbúning skurðaðgerða. Hún rannsakaði hvort hægt væri að sameina líffærafræðina sem og virkni heilans í eitt þrívíddarlíkan og æfa áætlaða aðgerð á líkaninu. Niðurstöðurnar sýndu að sameining þessara aðferða er möguleg og hægt er að nýta líkanið við undirbúning aðgerða og þar með auka gæði þeirra. Aðferðin mun verða notuð í framtíðinni, sérstaklega þegar kortlagning taugabrauta er orðin nákvæmari.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, þriðjudaginn 31. janúar nk. Alls eru fimm verkefni háskólanema við HR, HÍ og LHÍ tilnefnd til verðlaunanna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.