Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur HR undirbúa ferð NASA til Mars

20.5.2019

Vísindamenn eru væntanlegir til landsins í sumar til að prófa sjálfkeyrslubúnað fyrir næstu ferð NASA til Mars. Þeir njóta liðsinnis háskólanema við Háskólann í Reykjavík við undirbúning prófana á búnaðinum. Þær verða gerðar í Lambahrauni, norðan við Hlöðufell, en þar svipar jarðvegi og landslagi til þess sem fyrirfinnst á Mars.

12 nemenda hópur

Kanadíska fyrirtækið Mission Control Space Services sér um þessar rannsóknir og ætlar að prófa ýmsan búnað hér á landi í sumar fyrir fyrirhugaða ferð til Mars árið 2020. Tólf nemendur HR í tæknifræði og verkfræði vinna nú hörðum höndum að undirbúningi rannsóknanna sem NASA fjármagnar. Við hittum á nokkra þeirra í eðlisfræðistofu þar sem hópurinn hefur aðstöðu.

„Þau koma með prófunarbúnað hingað í júlí, meðal annars frumgerð af Mars-jeppa og það verður sett upp aðstaða fyrir hann í HR. Okkar verkefni er að undirbúa þennan leiðangur og vinna svo með þeim að rannsóknunum í sumar. Vísindamennirnir munu gera rannsóknirnar í Lambahrauni en þar er að finna þurran basalt-sand sem er líkur sandinum á Mars, en fyrirfinnst ekki víða í heiminum utan Íslands, og vindbarið basalt-hraun. Á þessu svæði eru líka farvegir í sandinum, eftir vatn sem kemur undan jöklinum, sem minna á farvegi á Mars og þau hafa þess vegna sérstakan áhuga á."

NASA-verkefniHluti hópsins í eðlisfræðistofunni í HR.

Er netsamband?

Á Íslandi verður meðal annars prófaður sjálfkeyrslubúnaður sem MCSS hefur þróað fyrir Mars-jeppa. „Við höfum verið að nota dróna til að fljúga yfir svæðið og safna gögnum sem svo hafa verið notuð til að þjálfa sjálfkeyrslubúnað Mars-jeppans. Það eru jafnframt ýmis önnur atriði sem þarf að aðstoða könnunarleiðangurinn með, eins og til dæmis að athuga hvort það sé netsamband á svæðinu og hvar best sé að geyma búnaðinn. Við hlökkum mjög til að fá að taka þátt í prófunum í sumar."

Myndin sýnir hóp vísindamanna að störfum í tjaldiVísindamenn frá MCSS að störfum á vettvangi. Myndin er tekin af vef fyrirtækisins (©MCSS).

Aðkoma margra rannsóknastofnana

Rannsóknirnar eru liður í svokölluðu SAND-E verkefni sem vísindamenn frá kanadíska fyrirtækinu Mission Control Space Services, Texas A&M University, NASA Johnson Space Center, Purdue University, Harvard University, MIT og Stanford University eiga aðild að, auk vísindamanna HR. Hópnum til aðstoðar verður einnig íslenska fyrirtækið Arctic Trucks sem sjá um flutning og gistingu starfsmanna MCSS. Nemendahópurinn hefur unnið verkefnið undir handleiðslu dr. Joseph Timothy Foley, lektor við verkfræðideild HR, í þriggja vikna áfanganum HönnunX.