Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur hugsi um heildina

8.6.2015

Viðskiptadeild HR hlýtur viðurkenningu hjá Sameinuðu þjóðunum í lok mánaðarins fyrir fyrstu skýrslu sína um framgang PRME-verkefnisins um menntun ábyrgra stjórnenda. Viðurkenningin verður veitt við athöfn í höfuðstöðvum samtakanna í New York. 

Guðrún Mjöll Sigurðardóttir

Með aðild að PRME hefur viðskiptadeild HR skuldbundið sig til að mennta nemendur í samfélagsábyrgð, leggja áherslu á ábyrga stjórnun og hvetja til þess að atvinnulífið stundi ábyrga viðskiptahætti en viðskiptadeild HR skrifaði undir viljayfirlýsingu PRME árið 2012. Í þessari fyrstu skýrslu er meðal annars fjallað um hvaða markmið deildin hefur sett sér í ábyrgri stjórnunarmenntun fyrir komandi ár.

Guðrún Mjöll Sigurðardóttir er verkefnastjóri innleiðingar PRME í HR. „Það sem býr að baki þessari viðurkenningu er öll vinnan sem fór í skýrslugerðina. Í skýrslunni er vissulega verið að greina frá árangri síðustu tveggja ára en við ákváðum að nota tækifærið til að setja niður markmið fyrir næstu ár. Það sem dómnefndin hefur væntanlega metið er að skýrslan er ekki einungis skjal sem var klárað til að geta strikað verkið út af listanum heldur er mikil vinna þarna á bakvið og er mjög heiðarleg, deildin kemur til dyranna eins og hún er klædd, ef svo má segja.“

PRME skýrsla

PRME-átakinu (PRME, Principles for Responsible Management Education) var upphaflega hrundið af stað af Sameinuðu þjóðunum árið 2007 og í dag eru um 500 viðskiptaháskólar frá yfir 80 löndum hluti af verkefninu. Guðrún segir það hafa komið starfsfólki deildarinnar skemmilega á óvart hversu vel þeim gangi að uppfylla skilyrði PRME. „Það má eflaust þakka því að það hefur verið undirliggjandi andi í starfi deildarinnar að stuðla að ábyrgum viðskiptaháttum og þetta rímar líka við gildi Háskólans í Reykjavík sem kveða á um að starfsemi HR eigi að vera til heilla fyrir samfélagið.“ Fræðimenn innan viðskiptadeildar hafi undanfarin ár sinnt rannsóknum á jafnrétti kynjanna, ábyrgum stjórnarháttum og faglegri ákvarðanatöku. Margir nemendur vilja líka rannsaka efni sem tengist samfélagslegri ábyrgð á einn eða annan hátt. „Tveir nemendur hjá okkur gerðu til dæmis áhugaverða rannsókn fyrir lokaritgerðina sína um siðferðikennslu í háskólum.“

Guðrún segir það markmið sitt sem kennara að gera nemendur sína ábyrga. „Ég vil að eftir kannski fimm ár, þegar nemendurnir eru komnir út í atvinnulífið, að ábyrgð gagnvart samfélaginu komi strax inn í hugann þegar þeir taka ákvörðun. Það getur verið erfitt að standa með sínum gildum í samstarfi þar sem mismunandi fólk hefur mismunandi skoðanir og gildi. En ef útskrifaðir viðskiptafræðingar spyrja sig , þó það sé ekki nema örstutt, hvort þessi ákvörðun sé til heilla fyrir heildina þá er ég ánægð.“ Að leggja áherslu á ábyrgð gagnvart samfélaginu í kennslu er alltaf mögulegt, sama um hvaða námskeið og námsgrein ræðir, að mati Guðrúnar. „Kennarar við deildina eru meðvitaðir um ábyrgð í sinni kennslu en ég minni þá einfaldlega á þetta, að gera þetta að umfjöllunarefni og hvetja nemendur til að velta þessu sem mest fyrir sér. Ég  kenni til dæmis tölfræðikúrs sem maður gæti haldið að kæmi lítið inn á samfélagslega ábyrgð en ég fjalla líka um málefnið þar, til dæmis, hvernig ákveður þú hvaða gögn þú vilt sýna og hvernig? Notar þú gögn á ábyrgan hátt. Alls staðar þar sem ákvarðanir eru teknar er hægt að hugsa um heildina.“