Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur í heilbrigðisverkfræði tilnefndir til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

30.1.2018

Þeir Gunnar Hákon Karlsson, Halldór Ásgeir Risten Svansson og Gabriel Sölvi Windels, nemar í heilbrigðisverkfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, eru tilnefndir fyrir verkefni sín til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin fimmtudaginn 1. febrúar á Bessastöðum.

Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna síðastliðið sumar. Stjórn sjóðsins velur fimm öndvegisverkefni sem unnin voru sumarið 2017 en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna.

Hvaða aðgerð hentar best?

Verkefni Gunnars og Halldórs heitir „Reikningar á brothættu beina hjá sjúklingum sem eru að gangast undir heildar mjaðmaskiptaaðgerð“. Verkefnið hefur það markmið að sýna fram á ákveðna þætti sem hægt er að nýta í einstaklingsbundnu mati fyrir aðgerð sem og einnig fyrir endurhæfinguna eftir aðgerðina sjálfa.

Heildarmjaðmaskiptaaðgerðin hefur umbylt úrræðum vegna meðferðar við liðagigt í mjöðm og er víðsvegar talin vera ein farsælasta aðgerðin í nútíma bæklunarskurðlækningum. Aðgerðin er þróuð sem lausn við þrálátum verkjum í mjaðmaliðum og er nú framkvæmd á nær 1000 sjúklingum árlega á Íslandi og mun sú tala fara hækkandi á næstu árum.

Hluti af verkefni Gunnars og Halldórs var að þróa nýjar aðferðir til að meta þéttleika beina, gæði vöðva, göngugreiningu og vöðvavirkni. Beinið er svo álagsgreint í tölvulíkani sem hermir eftir álaginu sem beinið verður fyrir í einni tegund aðgerðar.

Leiðbeinendur voru Paolo Gargiulo, dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Magnús Kjartan Gíslason, lektor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Kyle Edmunds, aðjúnkt við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og Halldór Jónsson Jr., prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og bæklunarlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús.

Vefjaræktunarkerfi með aðstoð þrívíddarprentunar

Verkefni Gabriels heitir „Þróun nýstárlega vefjaræktunarkerfa til rannsókna á öndunarfærum og til lyfjarannsókna“. Vefjaverkfræði er eitt af nýjum viðfangsefnum heilbrigðisverkfræði en í lýsingu á verkefninu segir meðal annars:

 

Verkefnið snýst um að þróa vefjaræktunarkerfi sem byggir á þrívíddarprentun plaststimpla til að móta formgerð öndunarfæra í millifrumuefni. Stimplarnir voru látnir mynda rásir í þessi þrívíðu ræktunarkerfi með það markmið að líkja eftir formgerð öndunarvega og til að geta betur stýrt þroskun og sérhæfingamynstri lungnafrumna í kerfinu. Plastefni voru prófuð og fundust lífsamrýmanleg efni sem bæði ódýrt og auðvelt er að nota til vefjarannsókna af þessari gerð. Lungnastofnfrumum var sáð í rásirnar og voru þær færar um að vaxa í þeim. Hagnýting þessa vefjaræktunarkerfis hentar t.a.m. til rannsókna á virkni boðefna og lyfja á þroskun og sérhæfingu lungna. Aukinn skilningur á þessum ferlum er nauðsynlegur svo bæta megi eða hanna ný meðferðaúrræði gegn lungnasjúkdómum á borð við lungnakrabbamein og bandvefsmyndun.

Verkefnið hefur náð að tengja saman verkfræðilega hönnun og lífvísindi á þann hátt að þrívíddarprentun nýtist við frumgerðarsmíði á útliti líffæra á borð við öndunarfæri. Áframhaldandi vinna við verkefnið miðar að því að þróa kerfið áfram þannig að það nýtist til rannsókna á lungnasjúkdómum og til lyfjaprófana, svo og að líkja eftir vefjauppbyggingu annarra líffæra.

Aðalleiðbeinandi var Jennifer Ann Kricker PhD og verkefnisstjóri læknadeildar HÍ og þar voru Sævar Ingþórsson frumulíffræðingur ásamt Ara Jóni Arasyni PhD og verkefnisstjóra við Rannsóknarstofnun í Stofnfrumufræðum meðleiðbeinendur. Verkefnið var unnið á Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur Háskóla Íslands þar sem Þórarinn Guðjónsson hafði umsjón með verkefninu.