Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur og kennarar HR sýndu nýjustu tækni á UTmessunni

8.2.2016

Háskólinn í Reykjavík var með fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna á UTmessunni að venju síðastliðinn laugardag. UTmessan er árleg ráðstefna og sýning þar sem almenningur getur kynnt sér það helsta sem er að gerast í tölvu- og tæknigeiranum hér á landi. 

Vísindamenn og nemendur kynntu í Norðurljósasal Hörpu verkefni sín og rannsóknir. Til dæmis var kennsla í tölvuhakki, kynning á hugmyndum að nýjum þjóðarleikvangi, hægt var að prófa  tölvuleiki sem voru búnir til af nemendum, gervigreindarhorn, þrívíddarprentuð líffæri, Formula Student kappakstursbíl og loftknúna smábíla. 

UT12

Sigurvegari á 14:59

/sys/tur, félag kvenna í tölvunarfræðideild HR, og Promennt stóðu að tölvutætingi, keppni í samsetningu tölva. Í tölvutætingi fá þátttakendur safn af tölvuhlutum sem þeir eiga að setja saman í starfhæfa tölvu og koma henni í gang og sá þátttakandi sem er fyrstur til að kveikja á tölvunni vinnur. Sigurvegarinn í ár náði að setja saman tölvu á 14 mínútum og 59 sekúndum eftir æsispennandi keppni. 

UT7

Hægt er að skoða myndir frá UTmessunni á Facebook-síðu HR