Nemendur skipulögðu eina stærstu hakkarakeppni sem haldin hefur verið hér á landi
Hin árlega IceCTF hakkarakeppni Háskólans í Reykjavík og Syndis var haldin 12. - 26. ágúst. Markmið keppninnar er að efla öryggisvitund á Íslandi og víðar á skemmtilegan hátt. Þeir James Elías Sigurðarson, Heiðar Karl Ragnarsson og Hlynur Óskar Guðmundsson standa fyrir keppninni. Ásamt því vinna þeir félagar hjá Syndis í hlutastarfi og stunda BSc-nám við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Þeir njóta einnig dyggrar aðstoðar dr. Ýmis Vigfússonar hjá Syndis sem er aðstoðarprófessor og kennari í tölvuöryggi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Þeir skipulögðu hakkarakeppnina: James, Heiðar og Hlynur.
Keppendur þurftu að setja sig í spor tölvuþrjóta og læra hvernig villur þarf að varast til að koma í veg fyrir að tölvuþrjótar geti brotist inn í kerfi. Áhugaverð og krefjandi verkefni voru í boði fyrir byrjendur sem og lengra komna. Yfir 3000 manns í um 1600 liðum víðsvegar að úr heiminum tóku þátt. Hörð barátta var háð um fyrsta sætið en það var liðið MegaByte sem stóð uppi sem sigurvegari.
Sigurliðið MegaByte ásamt Yngva Björnssyni, forseta tölvunarfræðideildar HR.