Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur skyggndust inn í framtíðina á Hamfaradögum

20.9.2016

Þrír nemendur stilla sér upp í SólinniHamfaradagar stóðu yfir í Háskólanum í Reykjavík frá miðvikudegi til föstudags í síðustu viku. Í stað þess að sitja námskeið unnu nemendur á fyrsta ári í tækni- og verkfræðideild verkefni þar sem þeim var kennt að þróa hugmyndir með hópavinnu. Hluti af því var að nemendur sem eru á fyrstu önn í TVD kynnist, skilji mikilvægi teymisvinnu og formlegri hugmyndavinnu.

Nemendur ánægðir með hópavinnuna

Haraldur AuðunssonAð þessu sinni var þemað „HR eftir 10 ár“. Nemendur kynntu hugmyndirnar í hádeginu á föstudag. Þær voru margar og ólíkar en voru samt allar í átt að bættu mannlífi og jákvæðum lífsgildum. Haraldur Auðunsson, dósent og sviðsstjóri heilbrigðissviðs við tækni- og verkfræðideild, var einn kennaranna sem hélt utan um Hamfaradaga. Hann sagði það koma skýrt fram í kennslumatinu að nemendur hafi verið ánægðir með að brjóta upp hefðbundna kennslu, „enda var létt yfir þeim í hádeginu á föstudaginn þegar þeir kynntu sínar hugmyndir í Sólinni“.

Umhverfisvernd, félagslíf og sjálfbærni

Hann segir verkefnin hafa verið afskaplega fjölbreytt, en almennt hafi nemendur litið sér nær og velt fyrir sér hugmyndum hvernig skólinn og umhverfi hans geti stuðlað að jákvæðum lífsgildum og bættu mannlífi. Hugmyndirnar sýni að nemendur séu að hugsa um bjart húsnæði og nánd við náttúruna, áhuga á aðstöðu til að slaka á og félagslíf, tækifæri til að gefa til samfélagsins, t.d. með fræðslu almennings, samstarf við fyrirtæki og með frumkvöðlasetri, ásamt því að gera umhverfið og skólann fjölskylduvænni. Einnig eru hugmyndir um sjálfbærni áberandi. Má þar nefna nýtingu staðbundinnar orku, s.s. sjávarföllin og sólarorkuna, ræktun og hugmyndum sem myndu draga úr umferð.

Myndband frá Hamfaradögum 2016