Fréttir eftir árum


Fréttir

Nemendur tækni- og verkfræðideildar bregðast við eldgosi í Snæfellsjökli

19.9.2017

Á fyrsta námsári takast nemendur í verkfræði, tæknifræði og íþróttafræði á við hamfaradaga; raunhæft verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Fimmtudagi og föstudag í síðustu viku þurftu nemendur að leysa úr margvíslegum alvarlegum vandamálum sem tengjast mögulegu gosi í Snæfellsjökli eins og sjá má af fréttum sem þeir fengu yfir daginn og birtar eru hér fyrir neðan. Hlutverk nemenda var að koma með áætlanir fyrir lok dags til ríkisstjórnarinnar um hvernig væri best að bregðast við alvarlegu ástandi í Ólafsvík, mögulegri flóðbylgju og öskufalli í Reykjavík.

Nemendur unnu í hópum og fjölluðu um rýmingar, skipulag umferðar, flutning á sjó, sjúkraskýli og hvaðeina sem hver hópur taldi skipta máli og vildi greina betur. Í dagskrá hamfaradaga var fléttað saman stuttum fyrirlestrum um hópavinnu, framkomu, kynningar, leit að upplýsingum og fleira. Hóparnir kynntu síðan tillögur sínar á föstudeginum fyrir leiðbeinendum og öðrum nemendum.

Hamfaradagar tækni- og verkfræðideildar eru ekki venjulegt vel afmarkað skólaverkefni, en það er hins vegar ekki ólíklegt að nemendur deildarinnar eigi síðar eftir að fá í fangið óljós verkefni af þessu tagi, hvort sem er í náminu eða í starfi síðar meir.

Válegir atburðir

Snemma morguns á fimmtudag var tilkynnt um gos í Snæfellsjökli. Fréttamaður Stöðvar 2 greindi frá þessu í sérstökum fréttatíma sem sýndur var í stofu V101 í HR.

„Snæfellsjökull er byrjaður að gjósa og þetta hefur ekki gerst í um 1750 ár,“ sagði Sindri Sindrason, fréttamaður Stöðvar 2 í frétt sem var búin til sérstaklega fyrir Hamfaradaga. Í henni var rætt við Magnús Tuma Guðmundsson, jarðeðlisfræðing og prófessor við HÍ, um þessa stórmerkilegu atburði sem þá voru nýskeðir. „Það eru ekki nema 7-8 kílómetrar frá gígnum að byggðinni í Ólafsvík. Skjálftavirknin bendir til þess að við séum ekki búin að sjá hámarkið. Það er ekki hægt að útiloka þann möguleika að þetta verði að stórgosi og þá getur ýmislegt gerst,“ sagði Magnús Tumi í viðtalinu.

21740391_2168625246704139_7414933852731187677_n

Frétt kl. 9:15: „Skjálftavirkni er nokkur og gosið fer vaxandi. Heimildamenn fréttastofu tækni- og verkfræðideildar í Ólafsvík segja að nú sjáist bólstrar stíga upp úr Snæfellsjökli, og að vatnavextir séu í ám sem renna í norður frá Jöklinum. Vatnsflaumur í ám sitt hvoru megin við Óalfsvík er það mikill að hann hefur skolað brúm í burtu og vegir eru að rofna á fleiri stöðum. Íbúar í Ólafsvík eru óttaslegnir og eru að króast inn í bænum vegna vatnavaxtanna. Óljósar fregnir eru um áform um að skipuleggja fólksflutninga úr bænum. Íbúar Ólafsvíkur eru þekktir fyrir útsjónasemi og snögg viðbrögð, vitað er að nokkuð er af bátum í höfninni, en engar viðbragðsáætlanir eru til.“

Frétt kl. 9:20: „Tignarlegir bólstrarnir sjást vel frá Reykjavík þar sem þeir rísa upp úr jöklinum og gosið er afskaplega fallegt að sjá héðan frá Reykjavík, enda Snæfellsjökull með fallegri eldkeilum landsins, og þó víðar væri leitað. Íbúar Reykjavíkur safnast vestur í bæ og út á Seltjarnarnes til að sjá gosið sem best. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru að myndast umferðarteppur, enda gatnakerfið ekki gert fyrir svona mikinn mannfjölda.“

Frétt kl. 9:24: „Vísindamenn árétta mögulega hættu á gjóskuflóði og skriðum sem geta farið af stað og runnið út í sjó, og þá sé ekki von á góðu. Þekkt er að þegar skriður og landfyllur renna í sjó þá geti myndast flóðbylgja, tsunami, sem gæti borist yfir Faxaflóa og gengið á land og valdið miklum skaða. Vísindamennirnir nefna að það hafi lengi verið áhyggjuefni að hús eru byggð nánast í fjöruborðinu hér á höfuðborgarsvæðinu. Fréttastofa tækni- og verkfræðideildar sér ekki betur en að það sé hæg austanátt og gosmökkurinn berst beint á haf út vestur af eldstöðinni.“

Frá stjórnvöldum til tækni- og verkfræðideildar kl. 9:26:„Engar áætlanir eru til um mögulegt gos í Snæfellsjökli og afleiðingar þess, því nær eingöngu hefur verið hugsað um Kötlu, Eyjafjallajökul og Heklu. Nú þarf að bregðast hratt við og stjórnvöld óska eftir aðstoð nemenda tækni- og verkfræðideildar. Nemendur eiga að setja sig í spor almannaráðs og eiga að koma með áætlanir um viðbrögð við þessum aðstæðum. Áætlanir eiga að vera tilbúnar kl. 3 í dag. Einnig er óskað eftir áliti hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af fleiri þáttum. Sjálfsagt er að nemendahópurinn skipti með sér verkefnum. Í ljósi aðstæðna, og að Snæfellsjökull og náttúran öll eru ólíkindatól, eru nemendur beðnir að vera vakandi fyrir fréttum og bregðast við ef ástæða er til.“

Hamfaradagar2017

Umsjónarkennarar námskeiðsins voru Haraldur Auðunsson og Hera Grímsdóttir, og auk þeirra leiðbeindi hópur kennara tækni- og verkfræðideildar nemendum í hópavinnunni: Aldís Ingimarsdóttir, Baldur Þorgilsson, Benedikt Helgason, Jens Arnljótsson, Kristján Halldórsson, Margrét Lilja Guðmundsdóttir, María Guðjónsdóttir, Páll Jensson og Sveinn Þorgeirsson.