Fréttir eftir árum


Fréttir

Taka þátt í alþjóðlegum keppnum í fjárfestingu og viðskiptum

3.2.2021

Nemendur HR munu taka þátt í tveimur stórum viðskiptakeppnum á vegum viðskiptadeildar í febrúar. Annars vegar er það hin viðamikla Rotman fjárfestingakeppni í Kanada og hins vegar International Case Competition við BI, hinn virta viðskiptaháskóla í Noregi, en HR tekur nú þátt í þeirri keppni í fyrsta sinn. 

BI viðskiptakeppnin

Í kepnninni í Noregi leysa lið frá háskólum á Norðurlöndunum raunveruleg dæmi úr heimi viðskiptanna. Úrlausnarefnin koma frá fyrirtækjum sem eru samstarfsaðilar keppninnar en þar á meðal eru Orkla, Telia, Jotun og fleiri vel þekkt fyrirtæki.

Keppnislið HR fyrir International Case Competition við BI

Keppnin stendur yfir í fjóra daga og fer að sjálfsögðu fram rafrænt í ár á Zoom, frá 16. til 19. febrúar. Í liði HR eru: Elín Helga Lárusdóttir, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Helgi Gunnar Jónsson og Kristófer Andri Kristinsson. Þau eru öll nemendur við viðskiptadeild og koma úr viðskiptafræði og hagfræði.

Ásgeir Jónsson, aðjúnkt við viðskiptadeild, er ráðgjafi hópsins. „HR bauðst þetta frábæra tækifæri með skömmum fyrirvara þannig að nemendurnir, fá ekki mikinn tíma til undirbúnings en fara þetta á æðruleysinu og liðsandanum. Við erum að kortleggja fyrri keppnir núna og skipuleggjum undirbúning út frá því.“ Aðrir háskólar sem taka þátt eru m.a. Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn (CBS), og Háskólinn í Lundi.

Rotman fjárfestingakeppnin

Fjárfestingakeppnin Rotman International Trading Competition, er haldin á vegum Háskólans í Toronto, Kanada á hverju ári og er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Þar hafa lið Háskólans í Reykjavík keppt áður og leysa snúin raundæmi úr fjárfestingaheiminum. Þátttaka HR í keppninni er styrkt af Nasdaq, Kviku, Landsbankanum, Icelandair og Íslandsbanka.

Nemendur skrá sig í sex eininga námskeiðið ,,Fjármálakeppni Rotman í Toronto“ á haustönn og þegar því er lokið komast fjórir til fimm nemendur í keppnisliðið fyrir hönd HR. Nemendur fá þrjár einingar fyrir að taka þátt. Námskeiðið, sem er við viðskiptadeild, undir leiðsögn Sævarðs Einarssonar. Nemendurnir koma úr bæði viðskiptadeild og verkfræðideild. 

„Við höfum verið að hittast vikulega frá áramótum. En fram til þessa hefur undirbúningur ekki getað verið mjög markviss þar sem ekki var búið að birta hvaða „case“ átti að taka fyrir í keppninni, en það var birt í síðustu viku og við getum því farið að skoða betur það sem við vitum að verður tekið fyrir,“ segir Sævarður. Keppnin er haldin á netinu í ár og er því umfangsminni en áður. Tekin verða fyrir þrjú úrlausnarefni á einum degi frá kl. 13-19.

Keppnislið HR fyrir Rotman International Trading Competition

Í lok námskeiðs er svo valið í keppnisliðið. Þetta árið er það skipað þeim Berglindi Elvu Sigvaldadóttur, Davíð Scheving Thorsteinssyni og Pétri Snæ Auðunssyni sem eru nemendur í fjármálaverkfræði og Einari Gylfa Harðarsyni sem er nemandi í hagfræði við viðskiptadeild. Nemendur fá styrk frá Nasdaq, Icelandair, Kviku banka, Landsbankanum og Íslandsbanka til að taka þátt í keppninni.

Greint verður frá gengi liðanna í keppninni hér á vefnum að þeim loknum.