Fréttir eftir árum


Fréttir

Netgreiningar á vöðvum og samskipti við vélmenni

24.8.2021

23 milljónum hefur verið úthlutað úr nýjum Innviðasjóði Háskólans í Reykjavík. Sjóðurinn var settur á fót fyrir um ári síðan og er markmið hans að styrkja aðstöðu og búnað til kennslu og rannsókna.

Í þessari fyrstu úthlutun fengu 13 verkefni styrk og var upphæð hvers styrks frá 400 þús. kr til rúmlega fjögurra milljóna.

HR sækir fram í rannsóknum á vöðvum og miðtaugakerfi

Stærsti styrkurinn, 4,3 milljónir króna, fer til kaupa á vöðva- og heilarita til rannsókna á miðtaugakerfinu og til nota við kennslu, greiningu og meðferð sjúkdóma. Starfsfólk við verkfræðideild, iðn- og tæknifræðideild og íþróttafræðideild stóð að umsókninni en búnaðurinn mun nýtast í vísindarannsóknum á sviði heilbrigðisverkfræði, íþróttafræði og jafnvel sálfræði.

Tölvuvædd og umhverfisvæn framtíð

Aðstaða til rannsókna á umhverfisvænum orkugjöfum verður efld með kaupum á gufukatli, dróna fyrir landmælingar og búnaði sem hermir eftir vindmyllum. Nemendur og vísindamenn HR munu svo geta lagt inn meira til spennandi þróunar á heimsvísu innan tölvunarfræði með bættri aðstöðu til rannsókna á interneti hlutanna, eða alltumlykjandi interneti, (internet of things) og fyrstu skrefum að rannsóknarstofu fyrir samskipti við vélmenni.

Eiga að nýtast í þverfaglegu samstarfi 

Við mat á umsóknum í sjóðinn er meðal annars litið til mikilvægi innviðar fyrir framfarir í kennslu og rannsóknum og fyrirsjáanlega sameiginlega nýtingu hans á milli deilda HR eða milli starfsmanna. Ofantalinn búnaður, og fleiri verkefni sem styrkt voru, nýtast í þverfaglegu samstarfi margra rannsóknasetra og/eða deilda innan HR. Það er því óhætt að segja að sjóðurinn nái vel að gegna því hlutverki sínu að efla samstarf um rannsóknir og kennslu innan háskólans.