Fréttir eftir árum


Fréttir

Níu lausar stöður doktorsnema og nýdoktora við svefnrannsóknir í HR

2.3.2021

Svefnbyltingin, þverfaglegt rannsóknaverkefni við Háskólann í Reykjavík hefur auglýst lausar stöður sjö doktorsnema og tveggja nýdoktora við HR. Stöður nýdoktora eru á sviði tölvunarfræði og verkfræði, en stöður doktorsnema við rannsóknir á sviði tölvunarfræði, verkfræði, sálfræði og íþróttafræði. Nánari upplýsingar um einstakar stöður er að finna á vef HR. Umsóknarfrestur er til 15. mars.

Svefnbyltingin er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem hlaut nýverið um tveggja og hálfs milljarða króna Horizon 2020 styrk frá Evrópusambandinu. Markmið verkefnisins er að umbylta greiningaraðferðum á kæfisvefni og öðrum svefnháðum öndunartruflunum. Að rannsóknunum koma vísindamenn við verkfræði-, tölvunarfræði-, sálfræði- og íþróttafræðideildir Háskólans í Reykjavík, íslensku fyrirtækin Nox Medical og Sidekick Health, og hátt í 40 samstarfsaðilar í evrópskum háskólum, heilbrigðisstofnunum og fyrirtækjum ásamt áströlskum háskóla. Markmiðið er að bæta greiningu og meðferð svefnvandamála, m.a. með því að gera greininguna notendavænni og persónulegri. Á sama tíma er stefnt að því að hún verði ódýrari fyrir heilbrigðiskerfið og að stytta biðtíma sjúklinga eftir greiningu.

Hér má finna nánari upplýsingar um svefnbyltinguna  

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu. Þannig bætir háskólinn lífsgæði einstaklinga og eflir samkeppnishæfni samfélagsins. Leiðarljós háskólans í kennslu, rannsóknum og öllu starfi eru sjálfbærni, ábyrgð og virðing. Sem vinnustaður leggur háskólinn áherslu á að samskipti og vinnubrögð einkennist af heilindum, sanngirni og jafnrétti. Leitast er við að skapa hvetjandi starfsumhverfi, áskorun í starfi, faglega endurgjöf og tækifæri til að eflast, þróast og hafa áhrif. Starfsmönnum bjóðast sanngjörn og samkeppnishæf starfskjör og sveigjanleiki og svigrúm til að sinna lífinu utan vinnu.