Fréttir eftir árum


Fréttir

Níu nemendur HR tilnefndir til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

15.1.2021

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2020. 

Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu.

Af þeim sex öndvegisverkefnum sem tilnefnd eru í ár eru þrjú verkefni unnin af nemendum HR og eitt að hluta. Verkefni nemendanna eru afar fjölbreytt en þau miða að því að minnka fordóma gegn geðrænum vandamálum, nota hljóð til heilaörvunar í Alzheimers sjúklingum, efla sálfræðilega þjálfun íslenskra knattspyrnuiðkenda og bæta samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi.

Borðspil fyrir unglinga um geðræn vandamál

Þær Elva Björg Elvarsdóttir, Elva Lísa Sveinsdóttir, Hildur Lovísa Hlynsdóttir, Sara Margrét Jóhannesdóttir og Kristín Rós Sigurðardóttir, nemar í sálfræði við HR, eru tilnefndar fyrir verkefni sitt Aukið aðgengi að hugrænni atferlismeðferð (HAM): Hugmynd að borðspili. 

Verkefnið snýr að því að hanna og framleiða fræðsluspil um geðheilsu sem byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar. Borðspilið er hugsað til notkunar í lífsleiknitímum á unglingastigi í grunnskólum landsins. Ákveðið var að hanna vefsíðu samhliða spilinu en þar verður hægt að nálgast leikreglur, kennarabækling, úrræði og annað fræðsluefni. Markmið spilsins er fyrst og fremst að minnka fordóma gegn geðrænum vandamálum og auka vitund ungmenna á því að ávallt sé gott að leita sér aðstoðar. Leiðbeinendur voru María Kristín Jónsdóttir, dósent við sálfræðideild HR og Álfheiður Guðmundsdóttir, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts.

Gæti stöðvað hrörnun hjá Alzheimer-sjúklingum

Þeir Bjarki Freyr Sveinbjarnarson og Hafþór Hákonarson, nemendur við tölvunarfræðideild HR, eru tilnefndir fyrir verkefnið Heilaörvun með nýtingu vefþjóns. 

Rannsóknir benda til þess að með því að örva heilabylgjur af gammatíðni sem dofna verulega í Alzheimers-sjúklingum sé hægt að stöðva hrörnun eða jafnvel snúa þróuninni á sjúkdómnum við. Þeir Bjarki Freyr og Hafþór gerðu vefþjónustu sem gerir notendum kleift að umbreyta venjulegu hljóðefni svo það örvi þessar heilabylgjur. Vonast er til að þjónustan nýtist fyrst til rannsókna og síðar til stafrænnar meðferðar við Alzheimers. Frá árinu 2018 hefur hópur nemenda úr tölvunarfræði og heilbrigðisverkfræði í HR þróað og rannsakað aðferðir við að umbreyta venjulegum hljóðskrám, svo sem hljóðbókum og tónlist, á þann hátt að við hlustun örvist þessar heilabylgjur. Leiðbeinandi var Gylfi Þór Guðmundsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild.

Sálfræðileg þjálfun í fótbolta

Grímur Gunnarsson, meistaranemi í klínískri sálfræði við HR, er tilnefndur til verðlaunanna fyrir verkefnið: Sálfræðileg einkenni íslenskra knattspyrnuiðkenda: Kynning og fræðsla. 

Grímur útfærði tillögu að því hvernig Knattspyrnusamband Íslands getur stuðlað að sálfræðilegri þjálfun ungra knattspyrnuiðkenda með markvissum, sálfræðilegum mælingum og hagnýtingu þeirra niðurstaðna. Jafnframt var kortlagt hvernig KSÍ getur séð til þess að leikmenn og foreldrar geti leitað sálfræðilegrar aðstoðar eða hugarþjálfunar ef þess er óskað.

Samhliða þessari vinnu var skrifuð bókin Sálfræði í knattspyrnu, sem mun koma út árið 2021. Bókin er ætluð knattspyrnuiðkendum á aldrinum 13-18 ára. Í bókinni er stiklað á stóru á helstu grunnþáttum sálfræði í knattspyrnu og lesendum gefin verkfæri til að stuðla að eigin sálfræðilegri þjálfun. Í lok hvers kafla eru leiðbeiningar til þjálfara um hvernig hægt er að innleiða efni kaflans á æfingum og í leikjum. Þrátt fyrir að verkefnið hafi verið unnið í knattspyrnuumhverfi á öll sú vinna sem var unnin fullt erindi til annarra aðildarfélaga Íþróttasambands Íslands. Leiðbeinendur Gríms voru dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og forseti íþróttafræðideildar HR og Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála á Íslandi og landsliðsþjálfari A-landsliðs karla.

Betri samskipti við sjúklinga

Ísól Sigurðardóttir, nemi í tölvunarfræði er tilnefnd fyrir verkefnið Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi. 

Það var þróað af nemum í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands ásamt Ísól. Markmið þess var að hanna og þróa frumgerð að hugbúnaði til þess að aðstoða skjólstæðinga meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi.

 

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 20. janúar nk. Verðlaunin eru nú veitt í tuttugasta og sjötta sinn.