Fréttir eftir árum


Fréttir

Fljúga hátt á Vatnaflygli

13.1.2014

„Vatnaflygillinn hefur vakið mikla athygli hvar sem við höfum frá honum sagt eða hann sýnt og það verður spennandi að sjá hvert sá áhugi leiðir þegar betur viðrar,“ segir Jón Trausti Guðmundsson sem ásamt Baldri Arnari Halldórssyni hannaði og smíðaði svonefndan Vatnaflygil sem lokaverkefni í vél- og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík.

Nemendur kynntu nýverið lokaverkefni sín og hlaut Vatnaflygillinn verðskuldaða athygli. Hann er í raun aukabúnaður og leiktæki fyrir sæþotu sem knýr flygilinn. „Sæþotan dælir vatni upp slöngu í búnað sem flugmaður ber á bakinu. Þaðan er vatnsbununni beint út um tvo stúta með nægilegum krafti til að bera flugmann og búnað á loft. Þá er hægt að breyta stefnu stútanna með haldföngum og þannig stýra stefnu Vatnaflygilsins við flug.“

Jón Trausti segir að mesta flughæð Vatnaflygilsins fari eftir dælugetu - og afli - sæþotunnar. Með þeirri sæþotu sem notuð var við prófanir á Vatnaflyglinum var hægt að fljúga í um 6,5 metra hæð en eftir því sem sæþotan er öflugri ræðst mesta hæð frekar af vatnsslöngunni. „Við vorum með fjórtán metra langa slöngu og með slíkri er eflaust öruggt að fara svona tíu metra upp í loftið.“

Sæþotunni er ekki siglt á meðan Vatnaflygillinn er tengdur við hana en Jón Trausti segir að lítið mál sé að draga sæþotuna með Vatnaflyglinum og færa sig þannig úr stað. „Menn fara kannski ekki hratt yfir enda er Vatnaflygillinn ekki endilega gerður fyrir ferðalög á mikilli ferð.“

Halda öllu opnu hvað framhaldið varðar

Eins og áður segir er um að ræða lokaverkefni þeirra Jóns Trausta og Baldurs Arnars. Þeir höfðu séð samskonar búnað á netinu, meðal annars myndbönd á YouTube, en búnaðurinn var mjög dýr. Þegar kom að vali á verkefni ákváðu þeir að athuga þann möguleika að hanna og smíða samskonar búnað fyrir sem minnstan kostnað. „Þegar við fórum að skoða þetta betur kom í ljós að smíði Vatnaflygilsins kæmi inn á marga þætti námsins. Því varð úr að kennarar og aðrir innan skólans samþykktu lokaverkefnið,“ segir Jón Trausti og tekur fram að þeir séu mjög þakklátir fyrir að hafa fengið að vinna að svo skemmtilegu lokaverkefni. Þess má geta að þeir fengu 9,5 í einkunn fyrir verkefnið.

Undirbúningur og skýrslugerð tók ansi langan tíma en smíði sjálfs búnaðarins ekki nema um tvær vikur. Vegna anna og veðurs tókst þeim ekki að prófa Vatnaflygilinn eins oft og þeir vildu en voru sérstaklega ánægðir með hversu vel prófanir gengu engu að síður. „Ætlunin er svo að prófa Vatnaflygilinn betur í vor þegar betur viðrar og þá jafnvel með öflugri sæþotu, þannig að við getum flogið enn hærra. Og þó við sjáum ekki endilega fram á framleiðslu Vatnaflygilsins höldum við öllu opnu ef við sjáum gott viðskiptatækifæri í vændum.“