Fréttir eftir árum


Fréttir

Keppni fyrir leikjahönnuði framtíðarinnar

18.1.2014

IGI, hagsmunasamtök íslenskra leikjaframleiðenda, og Háskólinn í Reykjavík efna til keppni í tölvuleikjagerð. Keppnin Game Creator er opin öllum þeim sem hefur langað að skapa eigin tölvuleik, hafa hugmynd að leik eða vilja vita meira um tölvuleikjagerð. Meðal þess sem keppendum býðst eru opnar vinnustofur um tölvuleikjagerð og ýmis ráðgjöf.

Keppnin stendur frá 18. janúar til 16. febrúar og fá þátttakendur jafnframt þjálfun í að kynna hugmyndir sínar, hópavinnu og innsýn í rekstur og stofnun fyrirtækja á því tímabili. Það er mikil lyftistöng að komast áfram í svona keppni fyrir áhugafólk um leikjagerð. Þetta er í þriðja skiptið sem keppnin er haldin.

Sigurvegarar síðustu Game Creator-keppninnar voru félagar sem kynntust í námi við tölvunarfræðideild HR og reka nú leikjafyrirtækið Lumenox Games (http://www.lumenoxgames.com/index.html). Alls eru nú níu manns í fullri vinnu við þróun tölvuleiks sem þeir þróuðu sem heitir Aaru's Awakening. Leikurinn var valinn af dómnefnd í Bandaríkjunum til þess að taka þátt í PAX Prime, einni stærstu leikjahátíð í heimi árið 2013. Leikjaframleiðendurnir Microsoft, Nintendo og Sony hafa allir haft samband við fyrirtækið og hafa sýnt áhuga á því að fá leikinn á leikjatölvur sínar.

Háskólinn í Reykjavík hefur í áraraðir menntað leikjahönnuði framtíðarinnar enda er tölvunarfræðideild háskólans sú stærsta sinnar tegundar á landinu. HR og IGI (Icelandic Gaming Industry) hafa gert með sér samstarfssamning og er Game Creator keppnin einn liður í því samstarfi.  HR hefur jafnframt styrkt stöðu sína enn frekar í rannsóknum og kennslu sem tengjast tölvuleikjagerð með sérstakri áherslulínu þar sem nemendur geta einbeitt sér að gerð tölvuleikja.

Gerð nýrra tölvuleikja og stofnun fyrirtækja í tölvuleikjaiðnaði er mikilvæg innspýting í íslenskt atvinnulíf. Árið 2011 veltu íslensk leikjafyrirtæki innan IGI 62 milljörðum evra og voru með 620 manns í vinnu.

Verðlaun

Sigurvegarar Game Creator keppninnar hljóta 140.000 krónur í verðlaun frá Arion banka sem nýta skal til að stofna fyrirtæki, aðstöðu og leiðsögn í þrjá mánuði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, leyfi fyrir þrjá í eitt ár hjá Unity, pláss á netþjóni hjá fyrirtækinu Basis í eitt ár og aðild að IGI í tvö ár.