Fréttir eftir árum


Fréttir

Vatnsmýrin verði öflugt þekkingarsvæði

20.1.2014

Vinna er hafin við að skapa öfluga miðstöð þekkingargreina og nýsköpunar á Íslandi í Vatnsmýri. Samstarfsvettvangur um eflingu þekkingarsvæðis í Vatnsmýrinni og mótun áætlunar þar að lútandi var formlega stofnaður í dag með undirritun samkomulags sem Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalinn standa að.

Sameiginlegt markmið aðila samkomulagsins er að móta metnaðarfulla áætlun um eflingu Vatnsmýrarinnar sem miðstöðvar þekkingargreina og nýsköpunar á Íslandi.

Hlutur þekkingargreina og hátækni þarf að aukast á Íslandi og lýsa aðilar yfir vilja til samstarfs um að efla hlutdeild þeirra í hagkerfinu en þar getur Vatnsmýrin gegnt lykilhlutverki með tvo stærstu háskóla landsins og háskólasjúkrahús. Staðsetning Vatnsmýrarinnar í næsta nágrenni við miðborg Reykjavíkur skapar  mikilvæg tækifæri til að byggja upp öflugt og lifandi þekkingarsvæði. Nútímalegt skipulag þekkingarsvæðisins getur laðað til sín og fóstrað fyrirtæki, rannsóknarstofnanir og starfsfólk í þekkingargreinum í alþjóðlegri samkeppni.

Í tillögum verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á vegum ríkisstjórnar kemur fram að alþjóðageirinn, sem eru alþjóðleg fyrirtæki sem byggjast á innlendri þekkingu, þurfi að vaxa mun hraðar en hagkerfið í heild þar sem sá geiri mun gegna lykilhlutverki í auknum útflutningi komandi ára.

Í samstarfinu verður lögð áhersla á eftirfarandi atriði:


  • Að greina núverandi stöðu og helstu sóknarfæri þekkingargreina í Vatnsmýri í alþjóðlegu samhengi.
  • Að skapa sameiginlega framtíðarsýn um þekkingarsvæðið Vatnsmýri.
  • Að undirbúa kynningu á svæðinu til valinna aðila hérlendis og erlendis.
  • Að setja fram aðgerðaáætlun með tímasettum markmiðum um næstu skref.

Aðilar eru sammála um að hefja þegar vinnu um ofangreind atriði og að henni verði lokið um miðjan apríl 2014.Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, Gunnar Einarsson, formaður SSH, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans undirrituðu samkomulagið í dag en þeir mynda stjórn samráðsvettvangs um þekkingarsvæði í Vatnsmýri.

Kostnaður við verkefnið er áætlaður sex milljónir króna og greiðir Reykjavíkurborg tvær milljónir króna, SSH eina milljón, HÍ eina milljón, HR eina milljón og LS eina milljón króna.