Fréttir eftir árum


Fréttir

HR brautskráir 202 kandídata

26.1.2014

Háskólinn í Reykjavík brautskráði í gær, laugardag, 202 kandídata við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu.

Útskriftarnemendur sem luku grunnprófi eru 141 talsins. Flestir luku námi frá tækni- og verkfræðideild að þessu sinni eða 76. Næst flestir útskrifuðust frá tölvunarfræðideild eða 32.

61 nemandi lauk meistara- eða doktorsnámi.  20 nemar luku meistaranámi frá lagadeild og 20 sömuleiðis frá tækni- og verkfræðideild. Þrír doktorsnemar voru brautskráðir í ár, þau Georgiana Caltais og Eugen Ioan Goriac frá tölvunarfræðideild og Siljá Rán Sigurðardóttir frá tækni- og verkfræðideild.

Tæplega helmingur allra þeirra kandídata sem útskrifuðust í gær eru brautskráðir frá tækni- og verkfræðideild HR eða 48%.

Útskrift HRDr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, óskar nýútskrifuðum nemanda til hamingju.

Sigríður Olgeirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka og MBA frá HR, flutti hátíðarávarp útskriftarinnar og Helga Guðmundsdóttir, útskriftarnemi í tölvunarfræði, flutti ávarp fyrir hönd nemenda háskólans. Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, afhenti eftirtöldum nemendum viðurkenningar VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi; Helgu Guðmundsdóttur, tölvunarfræðideild, Jóhanni Albert Harðarsyni, tækni- og verkfræðideild, Sigríði Dís Guðjónsdóttur, lagadeild og Vilhjálmi Maroni Atlasyni, viðskiptadeild. 

Útskrift HRSigríður Olgeirsdóttir

Meðal þess sem Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fjallaði um í ávarpi sínu til útskriftarnemenda var efling menntunar í landinu til að skapa þjóðinni verðmæti og bæta lífskjör til framtíðar. Sagði hann einu sjálfbæru leiðina fram á við að byggja á hugviti og þekkingu:

Þegar litið er til menntunarstigs þjóðarinnar stöndum við nágrannaþjóðum okkar verulega að baki og er það farið að hamla getu fyrirtækja til að vaxa hér á landi. Það er deginum ljósara að verulega þarf að auka verðmætasköpun á Íslandi til að standa undir væntingum okkar um lífskjör sem og skuldbindingum okkar til framtíðar. Slíkt verður ekki gert með því einu að auka sókn í takmarkaðar náttúruauðlindir. Eina sjálfbæra leiðin fram á við er að byggja á hugviti og þekkingu til að skapa okkur verðmæti og lífskjör til framtíðar.  Þörfin á vel menntuðu og hæfu fólki er nú þegar mikil og mun halda áfram að aukast næstu ár og áratugi.

Útskrift HR

Helga Guðmundsdóttir

Mikið hefur verið rætt um hversu illa íslensk stjórnvöld hafa fjármagnað háskóla á Íslandi, í samanburði við það sem gerist í okkar nágrannalöndum.  Eftir þann niðurskurð sem orðið hefur á síðustu árum er staðan sú að hverjum nemanda í háskóla á Íslandi fylgir aðeins helmingur þess fjármagns sem fylgir nemanda á öðrum Norðurlöndum.  Þetta er nokkuð sem verður að laga, svo Ísland verði samkeppnishæft í menntun og nýsköpun til framtíðar.  Menntamál eru efnahagsmál, ekki velferðarmál, því fjárfesting í menntun skilar auknum hagvexti og bættri samkeppnishæfni.”

Í dag er Háskólinn í Reykjavík stærsti tækniháskóli landsins og útskrifar tvo þriðju þeirra sem ljúka háskólanámi í tæknigreinum, helming þeirra sem ljúka námi í viðskiptafræði og þriðjung allra lögfræðinga. HR er jafnframt eini háskólinn á Íslandi sem hefur gildar alþjóðlegar vottanir á námsbrautum.