Fréttir eftir árum


Fréttir

MSc-nám í klínískri sálfræði hefst í HR í haust

19.2.2014

Meistaranám í klínískri sálfræði (MSc í klínískri sálfræði) mun hefja göngu sína við Háskólann í Reykjavík (HR) í ágúst. Námið, sem öðlast hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, uppfyllir kröfur íslenskra laga um starfsemi sálfræðinga.  Að auki hefur vottunarnefnd atferlisfræðinga í Bandaríkjunum (The United States Behavior Analyst Certification Board) samþykkt að námskeiðaröð MSc-námsins á sviði atferlisgreiningar uppfylli námskeiðskröfur um hæfi til að taka próf sem veitir sérfræðivottun í atferlisgreiningu (Board Certified Behavior Analyst Examination). Þetta er eina námið á Íslandi sem hefur hlotið slíkt samþykki.

Dr. Jón Friðrik Sigurðsson er nýráðinn forstöðumaður námsins. Hann er með MSc-gráðu í heilsusálfræði frá Stirling háskóla í Skotlandi og doktorsgráðu í sálfræði frá King´s College í Lundúnum og er sérfræðingur í klínískri sálfræði og réttarsálfræði. Jón Friðrik gegndi stöðu yfirsálfræðings á Landspítalanum á árunum 2001 til 2013 ásamt stöðu prófessors við læknadeild Háskóla Íslands og stöðu rannsóknarprófessors við HR frá 2007. Jón Friðrik segir MSc-námið í klínískri sálfræði við HR mjög metnaðarfullt og þarft. Það muni gefa faglegan og traustan undirbúning til starfa við fjölbreytta sálfræðilega þjónustu hér á landi, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða annars staðar í samfélaginu.  

MSc-nám í klínískri sálfræði við HR veitir nemendum faglega þjálfun á helstu sviðum starfsemi sálfræðinga á Íslandi. Námið er sérstakt að því leyti að það sameinar grundvallarsvið klínískrar sálfræði og gagnreyndrar nálgunar hugrænnar atferlismeðferðar og hagnýtrar atferlisgreiningar. Með miðlun þekkingar, leikni og hæfni  miðar MSc-nám í klínískri sálfræði við HR að því að gera nemendur að fjölhæfum og færum sálfræðingum sem eru vandlega undirbúnir faglega og siðferðilega fyrir vítt svið sálfræðilegrar þjónustu.

Nemendum er veitt þjálfun á þremur meginsviðum, 1) sálfræði fullorðinna, 2) sálfræði barna, unglinga og/eða fjölskyldna og 3) þroskahömlunar, taugasálfræði og/eða endurhæfingar. Námið samanstendur af námskeiðsvinnu, rannsóknarritgerð og klínískri þjálfun undir handleiðslu sálfræðinga. Efni og uppbygging námsins er svipað námi í klínískri sálfræði erlendis, sérstaklega á Norðurlöndum.