Fréttir eftir árum


Fréttir

Þróa námsgögn framtíðarinnar

23.2.2014

Haukur Steinn Logason og Vignir Örn Guðmundsson eru nemar við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Þeir leiða ungt sprotafyrirtæki, undir nafninu Radiant Games. Þeir vilja nútímavæða menntun með því að þróa spjaldtölvuleiki sem kenna börnum um gildi forritunar og rökfræðilega hugsun en áhersla í leikjunum verður á íþróttir og áhugamál.

                               Þróa námsgögn framtíðar
                                                                    Þeir Vignir og Haukur hafa þróað námsgögn framtíðar

Þeir Haukur og Vignir hafa í ótrúlega mörg horn að líta þessa dagana enda eru þeir að ljúka námi, stofna fyrirtæki og þróa námsgögn sem þeir vona að munu eiga þátt í að breyta námi í grunnskólum landsins sem og víða um heim. Radiant Games fengu úthlutað styrk frá Tækniþróunarsjóði í lok síðasta árs til að vinna að verkefninu en á bak við það er eina óstofnaða fyrirtækið sem fékk styrk í úthlutun sjóðins. „Það var ótrúlega lærdómsríkt og ánægjulegt að sækja um til Tækniþróunarsjóðs og liggur þar gríðarlega mikil vinna að baki,“ segir Vignir. Alls fær Radiant Games tæplega 40 milljónir á þremur árum frá sjóðnum. Þeir segja að bakgrunnur þeirra úr tölvunarfræðinni hafi mikið að segja um metnað þeirra til að breyta menntun. „Það má segja að við séum að þróa námsgögn sem við hefðum viljað hafa í okkar grunnskólanámi. Þegar við vorum yngri dreymdi okkur um að hafa aðgengilega afþreyingu sem tengdi íþróttir og áhugamál við rökfræðilega hugsun og forritun. Við viljum bjóða börnum í dag þá afþreyingu sem við fengum aldrei, og í raun kynna þeim fyrir tækni og forritun miklu fyrr á lífsleiðinni. Það er því miður þannig að skólakerfið hefur ekki enn mætt þessum þörfum barna sem eru fædd á 21.öldinni. Í dag læra börn og unglingar að nota upplýsingatækni en þau læra ekki að búa hana til og fá ekki mörg tækifæri til að örva sköpunargleðina með þessum tækjum og tólum sem þau eru þó orðin svo fær á.“

Fyrsti leikurinn frá Radiant Games verður fótboltaleikur. Í leiknum þurfa börnin að skilgreina hvernig leikmenn síns liðs eiga að hegða sér og almennt hreyfa sig á vellinum. Til þess þurfa þau að beita rökfræðilegri hugsun. „Í leiknum færum við lærdóm yfir í umhverfi sem börnin þekkja og líður vel í. Í leiknum nota börn rökhugsun til að klára verkefnið sem fyrir liggur; að spila fótbolta. Fótbolti er dæmi um verkefni úr lífi barna sem hægt er að brjóta í smærri verkefni og sigrast á. Með því að örva slíka hugsun getur barnið nýtt sér tiltekna rökhugsun til þess að leysa önnur verkefni sem verða á vegi þess á degi hverjum.“